mánudagur, 27. ágúst 2012

Döðlu- og súkkulaðikaka með bláberjarjóma


Þegar við vorum á Vesturfarasetrinu á Hofsósi um daginn keyptum við okkur hið mjög svo skemmtilega hefti Íslenskur uppáhaldsmatur. Þar er að finna ýmsar klassískar uppskriftir eins og t.d. að fiskibollum og fiskisúpu, plokkfiski og seyttu rúgbrauði, lummum, pönnukökum, rabarbarasultu og laufabrauði. Semsé nauðsynlegt hefði inn á hvert heimili.

Þarna er líka uppskrift sem ég rak strax augun í og klæjaði í fingurnar að gera bara hér og nú! Það er uppskrift að döðlu- og súkkulaðiköku með bláberjarjóma. Og það vildi nú bara svo til að þennan sunnudaginn átti ég einmitt nýtínd og bústin og blá bláber beint úr Haukadal, með kraftinn úr Strokki í fræjum og safa. Svo ég skellti í eina svona seinnipartinn og notaðist m.a. við Kitchen Aid hrærivélina hennar Huldu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég prófa slíka græju og Vá! þvílíkur munur. Þarf að drífa mig í að gifta mig sem allra fyrst!

Ég ætla að deila herlegheitinum hér á síðunni en mæli eindregið með að fólk verði sér úti um heftið því þetta er svo skemmtilegt framtak.

Innihald:
3 egg
150 g sykur
150 g hveiti
1 tsk lyftiduft
100 g suðusúkkulaði
100 g döðlur

Saxa niður döðlur og suðusúkkulaði í litla bita og setja til hliðar.

Þeyta saman egg og sykur þar til blandan er ljós og létt. Því næst er hveiti og lyftiduft sigtað saman og blandað varlega út í hræruna og að lokum suðusúkkulaði og döðlum.

Deiginu er skipt og bakað í tveimur bökunarformum sem eru um það bil 24 sm í þvermál. Muna að smyrja formin vel. Formin eru sett í 180°C heitan ofn og bakað í 15-20 mín.

Einum sólarhring áður en kakan er borin fram er þeyttur rjómi og bláber sett á milli botnanna og ofan á efri botninn. Svo er fallegt að skreyta kökuna með smá súkkulaðispæni.

Namminamminamm!












1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Læk á kitchen aid, giftingar og kökuna! Hef smakkað og hún er ekkert annað en dásamleg!
/Stella