mánudagur, 6. ágúst 2012

Hveragerði & Stokkseyri

Untitled

Sundlaugin í Laugaskarði

Untitled

Untitled

Untitled

Untitled

Untitled

Á Stokkseyri

Untitled

Untitled

Untitled

Untitled

Untitled

Tómatar

Við brugðum okkur af bæ í gær í tilefni þess að það var sunnudagur. Fórum í bíltúr yfir heiðina með Pétri afa og Ólöfu tengdamömmu og áfangastaðurinn var Hveragerði.

Þessar ferðir yfir heiðina með þessum hópi byrja allar eins: á sundferð í sundlauginni í Laugaskarði. Þar er sígild 50's stemmning í stíl laugarinnar og manni finnst maður hálft í hvoru út úr kú að vera ekki í bikíni buxum með háum streng og hlíralausum toppi.

Heiti potturinn var eitthvað slappur en gufubaðið er alltaf roknaöflugt og maður heyrir í hvernum hvæsa undir fótum sér.  Við fórum út á grasflötina og gerðum nokkrar teygjuæfingar og vorum að því loknu komin með ágætismatarlyst og tókum því stefnuna á steypibað.

Eftir velheppnaða sundferð borðuðum við hádegismat á heilsuhælinu og hittum þar Kalla afa Baldurs og frænku hans Rós. Í fullri hreinskilni verð ég að viðurkenna að maturinn á heilsuhælinu hefur að mörgu leyti dalað á undanförnum árum. Sumt hefur batnað, eins og salatbarinn, en allt annað hefur tekið skref aftur á bak. Mér finnst það svolítið sorglegt því það þýðir að ferðir austur fyrir fjall verða færri en ella þegar fyrirtaksmatur er ekki lengur það sem lokkar að. Hvað sem því líður þá áttum við mjög fína stund í hádeginu enda mjög huggulegt að sitja þarna og slappa af.

Eftir mat kíktum við síðan í heimsókn á Stokkseyri. Ég tók mér smá labbitúr um bæinn til að skoða mig um og taka myndir. Rölti meðal annars í gegnum kirkjugarðinn og skoðaði nöfn á gömlum legsteinum. Hef mjög gaman af því að safna sérkennilegum nöfnum úr kirkjugörðum landsins. Að þessu sinni fann ég nöfnin Millý, Oktavía, Zóphaníus og Júníus.

Þegar við vorum aftur komin í bæinn fórum við út á Reykjavíkurvöll til að sækja göngugarpana pabba og Huldu. Þau höfðu farið aðeins austar en við, voru að koma frá Egilsstöðum eftir velheppnaða gönguferð um Lónsöræfi. Við Baldur fórum ekki með að þessu sinni, eigum þetta bara eftir.

Engin ummæli: