þriðjudagur, 16. október 2012
Bæjarferð
Það rann upp magnaður og skýr dagur og það eina sem komst að var: Út vil ek!
Ég setti saman smá lista yfir hvað ég ætlaði að erindast þarna Ú T I. Hringdi í mömmu og mælti mér mót við hana. Lagði svo af stað með eyrnabandið góða sem stingur svo og fóðraða fingravettlinga, því ég ætlaði að labba langt í dag og láta svala veðrið engin áhrif hafa á það.
Það er magnað hvað allar útlínur og litir eru sterkir og skærir í síðhaustinu. Myndavélin litla er kannski ekki gerð fyrir magnaðar landslagsmyndir en ég varð bara að festa Esjuna á mynd því hún var svo sviphrein þarna í þriðjudagssólinni.
Það var alveg stillt og bjart á meðan ég gekk niður að Granda. Þegar við mamma komum út til að fara Gróttuhring var hins vegar aðeins farið að hvessa, en við létum það ekkert á okkur fá, sem betur fer því hinu megin á nesinu var dúnalogn, og vindurinn bara: Ha, ég? eins og hann hefði ekkert verið að hrekkja okkur.
Við gerðum úr Gróttuhringnum bæjarferð þar sem mig vantaði hitt og þetta og mömmu vantaði þetta og hitt. Við fórum í ófáar túristabúðirnar að spyrja eftir límmiða af íslenska fánanum sem fer aftan á bílstuðara. En það fékkst hvergi.
Hins vegar gekk mér betur með mitt erindi sem var að kaupa vatnsliti og pappír. Var að sjálfsögðu með sérfræðing með í för sem lánaði mér í fyrsta lagi vatnslitatréliti og í öðru lagi fræddi mig um þyngd pappírs og hvernig á að meðhöndla hann áður en maður byrjar að lita. Ég ætlaði bara að gusa þessu öllu á flötinn eins og einhver skessa! Mér tókst allavega skammlaust að kaupa mér réttan pappír og fína pensla.
Þegar við vorum búnar að versla í Bónus og komnar að gatnamótum Snorrabrautar og Laugavegs skildu leiðir. Þá hafði ég andað að mér öllu því súrefni sem fyrirfinnst á fjórtán km leið og var bara hress. Meira svona!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli