mánudagur, 15. október 2012

Helgarpunktarnir

F Ö S T U D A G S P U N K T U R I N N
Fór að hitta Baldur í Góða hirðinum, vorum að skima eftir góðri mublu inn á heimilið sem hýst gæti eitthvað af dótinu okkar. Þrátt fyrir góðan vilja og helmingsafslátt þá varð ekkert af þeim plönum hjá okkur. Í staðinn hjólaði ég niður í Skeifu í verslunarleiðangur á meðan Baldur hjólaði heim á Skype date. Úr Skeifunni hjólaði ég inn í Laugardal og mæti Maríu frænku, báðar rjóðar í kinnum af útiveru og hjólreiðum! Það lífgaðist aldeilis upp á vonbrigðin með Góða hirðinn. Og svo var föstudagsfiskurinn frá fiskbúðinni Vegamótum, blálanga í karrý, svo góður að allt var fyrirgefið. En til öryggis var líka skyrís og svo Big Bang og Modern Family, skothellt plan.

L A U G A R D A G S P U N K T U R I N N
Fórum í leikhús á laugardagskvöld að sjá verkið Á sama tíma að ári. Skemmtilegt og fyndið, kannski svolítið yfirdrifið á köflum og gamaldags húmor, en gaman engu að síður. Toppurinn var að sjálfsögðu að taka strætó í leikhús, uppástrílaður og fínn, tipplandi um Hlemm á háum hælum. Svo var líka sport í því að fara uppástrílaður inn á Devitos til að fá sé laugardagspítsuna. Þeir eru farnir að venjast því að sjá okkur í hvers kyns múnderingum, en vanast eru þeir samt einhvers konar blöndu af vettlingum og flíspeysum er ég hrædd um. Það var því alveg þörf á að lappa upp á ímynd okkar að einhverju leyti.

S U N N U D A G S P U N K T U R I N N
Við keyptum okkur skenkt á sunnudaginn! Vorum komin með alveg nóg af félagsskap kassanna og þeir af okkar, og á sameiginlegum fundi okkar á milli var ákveðið að við yrðum að finna handa þeim og dótinu okkar ásættanlega hirslu. Gerðum okkur ferð upp í Grafarvog til að kíkja á notaðan skenk til sölu og breyttum svo lánsbílnum í sendiferðabíl og tróðum 195 sm löngum skenknum inní. Svo sat ég og Pétur afi Baldurs aftur í, ég á gólfinu því sætin voru í skottinu, og snigluðumst niður eftir. Mössuðum svo græjunni inn í íbúð með inn-með-magann-og-tæma-lungun aðferðinni.

Nú þarf bara að koma þessu dóti inn í skenkinn og málið er dautt!

Engin ummæli: