fimmtudagur, 28. febrúar 2013

Vetrarrósir

Mmm, rósir um miðjan vetur. Alveg dásamlegt. Litir og líf sem mótvægi við skammdegi og vetri.

Takk alheimur! Ógeðslega flott framtak að búa til svona blóm.

Happythankyoumoreplease  ♥ ♥ ♥

Vetrarrósir
 
Untitled
 
Untitled

miðvikudagur, 27. febrúar 2013

Grænt brum

Tilkynningaskyldan: Það fannst grænt brum á skjólgóðum stað við Snorrabrautina fyrr í dag. Sólin er vinsamlegast beðin um að láta sjá sig og gæta þessara nýgræðlinga.

Er þetta ekki óvenjusnemma á ferðinni? Í fyrra var ég að bíða eftir brumi fram eftir öllum mars. Vissulega var ég við heimskautsbaug, en samt. Vonum að grænmjúkurnar þoli það sem eftir er af vetri.

Hér að neðan erum við Baldur í myndavélaeinvígi. Ég veit ekki hvort okkar vann. Kannski ég því mín mynd kemst þó allavega út á alvefinn.

Baldur tók mynd af mér af svölunum þegar ég var að fara að hjóla til mömmu, með körfuna fulla af bakstursvöru. Ég komst nefnilega í ofninn hennar mömmu og bakaði smá gottígott. Meira af því seinna.

Brum í febrúar

Snorrabraut 30

sunnudagur, 17. febrúar 2013

Útiæfingar

Við gerðumst svo djöf að fara út að æfa í gær.

Eee, þessi fullyrðing er kannski ekki alveg sannleikanum samkvæm. Ég hugsa að notkun mín á persónufornafninu við sér í þessu samhengi rangstæð.

Baldur fer út að æfa á hverjum degi, oft á dag jafnvel, sama hvernig viðrar. Hann kallar þetta ekki Street Fitness fyrir ekki neitt!

Ég gerðist svo djörf fyrir mína parta að fara út að æfa í gær með Baldri gúru. Ég hjólaði niðrí Nauthólsvík á meðan Baldur hljóp þetta. Ég var hálfgerður hraðamælir handa Baldri en ég hefði kannski ekki samþykkt það hlutverk hefði ég vitað fyrirfram að ég þyrfti að hafa mig alla við á petulunum til að halda í við þennan sprettharða þjálfara! Hehemm, þetta er bara okkar á milli.

Þegar í Nauthólsvíkina var komið tókum við einskonar skorpuþjálfun á tíma, þar sem Baldur stillti appið og svo pípti það og við á fullt að æfa í 30 sekúndur., svo pípti það aftur og við fengum að hvíla í 10 sekúndur. Þetta hélt svona áfram í svolitla stund, þangað til maga- og bakvöðvar voru farnir að titra af áreynslu. Ég var allavega afskaplega fegin að fá að hjóla heim en þurfa ekki að hlaupa þennan spotta.

Þessar æfingar hituðu ekki bara upp sinar og vöðva því mér hlýnaði alveg inn að kjarna þegar ég minntist þess að við stunduðum útileikfimi í Kaupmannahöfn hér um árið. Ah, hlýtt í hjartað af góðum minningum!

Útiæfingar
 
Hjólamagi
 
Sveiflan
 
Kíkja á tærnar
 
Hryggvinda

föstudagur, 15. febrúar 2013

Heiðríkja

Það var virkilega fallegt veður í dag: logn og stilla og kristaltærir litir bæði í lofti og á láði.

Í tilefni þess fór ég í langan göngutúr, gekk frá Snorrabrautinni upp að Hallgrímskirkju og þaðan niður Mímisveg, inn Fjölnisveg og síðan inn á Laufásveg og þaðan niður í átt að Hljómskálagarði. Þar staldraði ég við til að virða fyrir mér útsýnið: spegilslétt Tjörnin, Fríkirkjan og yfir allt saman trónandi Esjan. Glæsileg sýn!

Ég gekk að HÍ og fór Alexanderstíg, í og með til að rifja upp gamla tíma en einnig til að upplifa nýja tíma og breytingarnar sem þeim hafa fylgt, þ.e.a.s. Háskólatorg. Svakaflott bygging, mann hálflangar aftur í háskólanám þegar maður sér hvað þetta er orðið flott.

Frá háskólasvæðinu rölti ég götuna sem ég rölti svo oft þegar við bjuggum á stúdentagörðum, þ.e. Aragötuna. Ég tók síðan stefnuna á sjóinn og gekk heillengi meðfram strandlengjunni, því nú var ég farin að snúa heim á leið og átti langa leið fyrir höndum.

Þar sem veðrið var svo milt gat ég sest á stein og hugleitt við öldugjálfur í hátt í klukkustund. Sólin vermdi andlitið og sjórinn og fjallagarðurinn sáu mér fyrir félagsskap.

Af öðrum fréttum þá áttum við skötuhjú sambandsafmæli í gær. 12 ár saman! Það er góð tala, og það sem betra er, hún stendur fyrir tólf yndislegum árum.

Untitled
 
Untitled
 
Mosagrænt
 
Við Tjörnina
 
Við Ægisíðu, horft yfir á Keili
 
Ægisíðan