föstudagur, 2. nóvember 2001

Úlfaldar og geitaskinn

Við Karitas hittumst í dag og gerðum margt okkur til skemmtunar. Við byrjuðum á því að fara niður í Bókhlöðu og ég útskýrði fyrir henni að þetta væri eitt stærsta bókasafn landsins og að þar inni væri að finna ógrynni bóka og flestar væru þær á útlensku. Það fannst henni mjög merkilegt. Ég útskýrði líka fyrir henni að þangað færu stúdentar að læra og lesa og því yrðum við að hafa mjög hljótt og að það væri stranglega bannað að tala þarna inni.

Á annarri hæð er ljósmyndasýning sem einn af mannfræðikennurum mínum stendur fyrir, hún Kristín Lofts. Þar er að sjá myndir af WoDaaBe fólkinu í Níger þar sem Kristín gerði vettvangsrannsókn sína. Þarna er líka að sjá nokkra muni WoDaaBe fólksins sem hún hafði með sér heim t.d. hnakkur fyrir úlfaldareið, vatnssekkur úr geitaskinni, sverð, ofið teppi o.fl.

Í vor sat ég námskeiðið Etnógrafía Afríku hjá Kristínu og þar lærðum við m.a. um WoDaabe fólkið. Ég gat því nýtt þá þekkingu núna og sagt Karitas frá þeim. Ég sagði henni m.a. að WoDaabe væru múslimar og að trú þeirra héti Islam. Ég sagði henni að heimili þeirra væri undir berum hinmi og að þarna væri fjölkvæni viðtekin venja.

Henni fannst þetta allt mjög heillandi og þegar kom að því að úskýra fyrir henni að þeir væru hirðingjar og væru því mikið á faraldsfæti og notuðu til þess asna og úlfalda, sagði hún mér frá því að þegar hún var í Ísrael fór hún í reiðferð á úlfalda. Væri ég til í það? Já!

Við fórum síðan heim og ég sýndi henni dýrin öll sömul, hún varð einkar hrifin af strákunum litlu og vildi fá að halda á þeim statt og stöðugt. Við fórum líka út með Kaníku og tíndum handa henni arfa í tvo poka. Ég vona að það dugi í nokkra daga en miðað við fyrri arfaát hennar er sú von í hæsta máta bjartsýn.

Núna erum við að fara í pizzu til pabba. Það er gaman að geta þess að þessi siður að hafa pizzu á föstudögum í fjölskyldu minni er eldgamall og ég get nánast sagt að hann hafi verið síðan ég man eftir mér. Það voru góðir tímar þegar Andri át bara skorpur og pizzurnar frá Pizzahúsinu voru góðar.

Þyngd og þroski: Strákarnir taka hröðum framförum. Í dag settum við arfa í körfuna þeirra og Bjartur smakkaði á honum en Rúdófur fékk sé bara stóran bita af honum. Þetta er í fyrsta sinn sem hann borðar eitthvað annað en mjólk.

Þeir eru alltaf að verða frakkari og frakkari, stökkva út höndum manns og taka sér langa göngutúra á rúminu, það er meira að segja farið að votta fyrir kanínugöngulagi (a.k.a hoppa) en hingað til hafa þeir staulast áfram eins og stirð gamalmenni.

Bjartur vegur núna 121 gr. og Rúdólfur 80 gr. Þessi mæling fór fram áður en þeir fóru á spena og því eru þeir ekki eins þungir og í gærkvöldi þegar þeir voru nýkomnir af spena.

Engin ummæli: