mánudagur, 5. nóvember 2001

Troðið út úr dyrum

Þá er lesvikan hafin hjá mér, við í mann- og þjóðfræðiskor fáum alltaf eina viku frí frá fyrirlestrum til að gera ritgerðir og ná í skottið á lesefninu. Ég notaði því tímann í dag og byrjaði á ritgerðinni um Weber fyrir kenn. í fél. Í þessum kúrs er ekkert frjálst val um ritgerðarefni eins og það er alltaf í mannfræðinni, við höfðum um þrjú efni að velja, eitt frá hverjum kalli og mér leist best á að reyna við Weber (hehe). Ritgerðarspurningin er þessi:


"Mikið ósamræmi er á milli aðferðafræði Webers annars vegar og kenninga hans um lagskiptingu hins vegar". Ræðið rök með og á móti þessari fullyrðingu. Hver er þín skoðun?

Ég fór síðan í tíma í þessum sama kúrs kl. 10. Þetta er nefnilega sameiginlegur kúrs innan félagsvísindadeildar og við mannfræðingar sitjum hann ásamt stjórnmálafræðingum og félagsfræðingum. Þar sem þessar skorir hafa enga lesviku féll fyrirlesturinn ekki niður og þá var bara að mæta.

Reyndar felldi Þórólfur niður seinasta tímann af beiðni okkar í mannfræðinni, ekki af því að við nenntum ekki að sitja þarna, nei nei sei sei, heldur var ástæðan sú að í hádeginu hélt Waris Dirie fyrirlestur í hátíðarsalnum í Aðalbyggingunni og allir ætluðu þangað. Við Dögg fórum og gerðum heiðarlega tilraun til að komast inn en það var allt troðið út úr dyrum, maður heyrði ekki einu sinni að þarna fyrir innan væri verið að flytja fyrirlestur fyrir öllu skvaldrinu frammi.

Þetta var frekar súrt í broti að missa af þessum fyrirlestri því Eyðurmerkurblómið, eins og hún er kölluð, hefur skrifað mikið um umskurð kvenna í Afríku. Ég gerði einmitt ritgerð um umskurð kvenna og notkun blæjunnar í múslimskum ríkjum og þetta hefði án efa verið mjög athyglisverð hlustning. Það er kannski von að hún flytji hann aftur því það voru færri sem komust að en vildu.

Þyngd og þroski: Strákarnir eru núna orðnir algjörar hlussur, Bjartur er orðinn 160 g og Rúdólfur er orðinn 131 g. Við erum farin að hafa efasemdir um kyn þeirra, það sem við héldum fyrst að væri pungar lítur ekki út fyrir það lengur. Hvað ef þetta eru stelpur? Nú, þá verða þær bara að heita Bjartur Birta og Rúdólfur Rut.

Engin ummæli: