mánudagur, 13. desember 2004

Menningarleg markaðsfræði

Enn sit ég og les markaðsfræði, er að rifja upp kafla þar sem komið er inn á vægi menningar í samskiptum fyrirtækja. Í þessum kafla er sagt frá vestrænni fulltrúanefnd sem var gerð út af örkinni til þess að koma á samningum við Tævan. Þegar þangað var komið færðu meðlimir hennar þarlendum kollegum sínum grænar derhúfur.

Þeir komust fljótlega að því að móttökunefndin var ekki sú líflegasta en kannski var það af því að mánuði síðar áttu að vera kosningar og einkennislitur mótframbjóðendanna var einmitt grænn. Sjálfsagt hefði slík móðgun verið afsakanleg þar sem um óviljaverk var að ræða og ekki hægt að ætlast til þess að fulltrúanefndin vissi að Framsókn væri illa séð um allan heim.

Þó hefur tævönsku nefndinni sjálfsagt reynst erfiðara að horfa framhjá þeirri rótgrónu hefð meðal Tævanskra karlmanna að klæðast grænu ef eiginkonan hefur verið þeim ótrú. Í skýrslu fulltrúanefndarinnar kom fram að ekki væri vitað hvað varð af grænu derhúfunum og að ferðin hefði aukið mjög á skilning þeirra á hve ólíkir menningarheimar geta verið.

Engin ummæli: