laugardagur, 24. desember 2005

Leiðiskertin í ár

Undanfarin tvö ár höfum við Baldur lagt leið okkar í Fossvogskirkjugarð snemma á aðfangadagsmorgun til að vitja leiða ættingja. Við höfum yfirleitt skilið eftir kerti við leiðin, en veður og vindar hafa alveg ráðið því hvort þau hafi verið logandi.

Í ár kemst ég hins vegar ekki að vitja leiða Rut ömmu, Ásdísar ömmu og Óla afa. Þess í stað langar mig að birta hérna minningargreinar sem ég skrifaði fyrir tíu árum þegar ömmurnar mínar dóu. Ég fann þær nefnilega á mbl.is um daginn og hafði gaman af.

Rut Gróa Þórðardóttir (25. mars 1917 - 10. júní 1995)

Okkur systkinin langar að minnast elskulegrar ömmu okkar. Alltaf tók hún vel á móti okkur á Vífilsgötu þegar mamma og pabbi þurftu á pössun að halda. Frá samverustundum inni í hlýrri stofunni með gulu, hlýlegu veggjunum eigum við góðar minningar. Aldrei munum við gleyma því þegar hún gaf okkur sveskju og söl, og eftirvæntingunni þegar hún náði í lakkrísinn sem hún geymdi bak við sófa.

Amma hafði mjög gaman af því að spila á píanó. Við munum sérstaklega eftir því að hún spilaði oft "Nú er frost á Fróni" og vildi að við tækjum undir. Við eigum einnig mjög góðar minningar frá dvöl okkar í sumarbústaðnum með ömmu og Siggu frænku. Þar var oft glatt á hjalla og leið ömmu mjög vel þar.

Elsku Rut amma, við viljum þakka þér fyrir allar þær góðu samverustundir sem við áttum með þér og fyrir umhyggjuna sem þú sýndir okkur ávallt. Með þessum orðum kveðjum við þig.
Ásdís og Andri.

Ásdís María Sigurðardóttir (26. nóvember 1928 - 12. júlí 1995)

Við erum hér saman komnar frænkurnar tvær til að minnast elsku ömmu okkar. Heima hjá ömmu og afa ríkti ávallt mikil gleði. Alltaf var stutt í brosið og hláturinn hjá ömmu og munum við ekki eftir að hafa séð hana öðruvísi en káta og hressa. Amma var mjög músíkölsk, hún spilaði á gítar og söng fyrir okkur í afmælunum. Hún átti orgel og leyfði hún okkur oft að glamra á það.

Amma var dugleg að skrifa dagbók um helstu atburði og geymdi hún hana undir púðunum í sófanum. Amma bakaði alltaf mjög góðar kökur, við hlökkuðum alltaf til að fara í afmæli til ömmu og afa og smakka góðu terturnar hennar ömmu og að fá brauðterturnar frá afa. Við minnumst ömmu þegar hún trítlaði á inniskónum og sloppnum með rúllurnar í hárinu og þegar hún sat í sófanum með teppið sitt.

Elsku amma, minning þín mun ávallt vera í huga okkar og viljum við þakka þér fyrir stundirnar sem við áttum saman. Þínar nöfnur,
Ásdís María og María Björk.

Engin ummæli: