mánudagur, 20. febrúar 2006

Sveitarferð

Við brugðum okkur af bæ í gær til að kíkja á Fjólu, Ingólf og Kjartan. Þar sem þau búa í Trørød kollegiet við Vedbæk (lengst út í sveit) urðum við að taka strætó, lest og aftur strætó til að komast til þeirra. Það var sannarlega þess virði því við fengum að upplifa aftur þá Danmörku sem við kynntumst á tjaldstæðinu í Rødovre árið 2001, þ.e. hina ofurrólegu og sem-klippt-út-úr-barnabók Danmörku. Í Vedbæk er allt svo snyrtilegt og öllu svo vel komið fyrir að maður áttaði sig allt í einu á því hve miðbær Kaupmannahafnar og nærliggjandi hverfi eru... ekki alveg þannig.

Það var líka fleira nýtt sem við fengum að sjá fyrir utan Vedbæk, við vorum nefnilega að hitta litla Kjartan í fyrsta sinn. Við færðum honum að gjöf litla skó með bjöllu í sem á að hvetja börn til að grípa í fæturna og þannig þroska hreyfingar sína. Okkur fannst við kræf að gefa fjögurra mánaða barni skó sem ætlaðir eru níu mánaða en aldeilis ekki, þeir voru of litlir! Hversu lítil númer eru þetta? Eða hversu stór er Kjartan?

Eftir stórgóðar pönnsur með jarðarberjasultu og rjóma, skemmtilegt spjall og túr um huggulegu íbúðina kvöddum við þau skötuhjú og kút og héldum aftur heim í Nordvest. Þó sveitakyrrðin sem svífur yfir vötnum við Vedbæk sé frábær tilbreyting frá hávaðanum í borginni á ég samt erfitt með að ímynda mér hvernig ég færi að hefði ég ekki allt þetta sem ég hef - grænmetissalann, bakaríið, bókasafnið, ræktina - hér í næstu húsum. Ég býst við að ég sé algjört borgarbarn.

Hér stend ég fyrir framan loppemarked-inn í Mariehøjcentret á lestarstöðinni í Vedbæk

Beðið eftir vagni 195 - þá er gott ráða að gretta sig smá

Sá sæti í bjölluskónum

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir síðast, þetta var mjög gaman.

Verð að hryggja ykkur með því að Mariehøjcenteret er í Gl. Holte, og þetta er nú bara lestarstöðin í Vedbæk. Samt mjög líklegt að fólk úr Mariehøjcenteret hafi verið með loppumarkað þarna ;)

Þá er víst komið að okkur að hætta okkur úr sveitasælunni í ys og þys borgarinnar. Það kemur vonandi með hækkandi sól.

ásdís maría sagði...

Takk sömuleiðis :)

Þið eruð alltaf velkomin í Nordvest, við hlökkum bara til hækkandi sólar.

Ætli ég leiðrétti ekki þetta með Mariehøjcentret, einhver hefur slegið ryk í augu okkar með því að setja upp skilti um að þetta væri það og við, óvön sveitafólki, trúðum þessu alveg. En lestarstöð er þetta víst og ekkert verra fyrir það. Allavega gátum við slegið tímann í hel á meðan við biðum eftir vagninum, sáum þó ekkert spennandi til sölu fyrir utan silfurkamb, notaðan - keyptum'ann ekki.