mánudagur, 10. apríl 2006

Eldibrandur

Það var eins og ég væri á örvandi í dag. Kannski það hafi verið því að þakka hversu snemma ég fór á fætur, hugsanlega hefur það haft svona góð áhrif á boðefnabúskapinn. Hvað sem það var þá kom ég heim eftir erfiða æfingu í ræktinni og í stað þess að skríða uppgefin upp stigann tölti ég upp tröppurnar og blés varla úr nös.

Þegar inn var komið tók ég síðan til við að sópa og, það sem meira er um vert, skúra. Þetta var í allrafyrsta sinn sem ég skúra þessa íbúð. Það þýðir ekki að þetta var í fyrsta skiptið sem íbúðin var skúruð, það viðurkennist sem sagt hér með að Baldur hefur hingað til alfarið séð um þann pakka.

Það var síðan ekki fyrr en ég var búin að ganga frá hreina þvottinum, pússa upp baðherbergisgólfið og viðra mottuna að ég gaf mér tíma til að hvílast. Ég veit ekki hvað gekk að mér en ég veit þó að mér líkaði mjög vel að vera eins og eldibrandur.

Engin ummæli: