miðvikudagur, 3. maí 2006

Fyrstu lotu lokið

Munið þið eftir því þegar ég skilaði inn SRB umsókninni? Í gær mættum við Baldur á sjálfan atburðinn, spennt að ljúka því sem við vissum ekki hvað yrði.

Það kom á daginn að SRB er mjög skemmtilegur viðburður. Við vorum saman komin sex sem viljum fara í starfaskipti, þrjú frá UNIC og þrjú frá CBS. Þessar tvær AIESEC deildir vinna mikið saman, það útskýrir af hverju okkur var hent saman inn í SRB.

Dagskráin var einföld: einstaklingsviðtöl og hópavinna. Í hópavinnunni fengum við það ábyrgðarhlutverk að ákveða gildi Sameinuðu þjóðanna auk þess sem við höfðum 15 mínútur til að skapa og setja saman fána AIESEC. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið stórskemmtilegt, en kannski örlítið taugastrekkjandi að hafa sex manns úr dómnefnd horfandi á mann til að meta frammistöðu manns.

Í einstaklingsviðtölunum sat maður frammi fyrir þessum sex dómurum og svaraði spurningum þeirra. Tvö þeirra þekkti ég nú, Sannah og Fernando eru nefnilega úr UNIC. Hin fjögur voru fulltrúar úr atvinnulífinu (Danske Bank), akademíunni (Hróarskelduháskóla), sálfræðingur og fulltrúi frá AIESEC. Þeirra hlutverk var að spyrja okkur spjörunum úr, meta okkur og gefa stig. Á stigagjöfinni valt svo hvort maður næði í gegn eða ekki.

Skemmst er frá því að segja að öll sex flugum við í gegn svo nú getum við Baldur andað léttar - við höfum verið samþykkt sem fulltrúar AIESEC í Danmörku og megum því fara í starfaskipti á þeirra vegum.

Í næstu lotu lærum við á gagnagrunninn hjá AIESEC. Mér skilst reyndar að til að mega nýta sér hann verði maður að ljúka prófi fyrst. Þetta hljómar allt pínu formlegt, það mætti halda að við værum að reyna að komast inn í lífvarðarsveit drottningarinnar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ elskurnar í tilefni dagsinn þá er best að kasta á ykkur kveðju og segja við Bldur til hamingju með seinna afmælið sem er öllu merkilegar en það fyrra.
Ykkar
Stjáni

baldur sagði...

Kærar þakkir :o)