Ekki verða fleiri heimsóknir á Ámákur að sinni þar sem froskarnir hafa flutt á Krónprinsessugötu, en hún er á Sjálandi. Í tilefni af flutningunum mættum við eins og ráðgert var um áttaleytið. Reyndar hafði ég lýst því yfir við Stellu að við kæmum sennilega ekki alveg á slaginu og það stóðst, við mættum 7:59.
Þrælapuðið hófst um leið og við mættum. Allir fengu hlutverk við hæfi: Ég og Kristján þungir hlutir, Ásdís og Stella kassaburður, Sigrún og Sigrún barnagæsla og PG lyftu- og dyravarsla ásamt umferðarstjórnun.
Flutningarnir út og inn gengu hratt og greiðlega fyrir sig ef frá er talið eitt vinnuslys og eitt flutningavandamál. Vinnuslysið átti sér stað á leiðinni út þegar ein af tám Kristjáns kramdist undir kommóðu með þeim afleiðingum að nöglin hékk laflaus á.
Flutningavandamálið fólst í að gangurinn á nýja staðnum er meira en hundrað ára og í þá daga notaði fólk ekki tvíbreið rúm. Lausnin á því var fundin með því að saga rúmið til og minntum við helst á tékknesku ruglukollana sem sýndir voru á RÚV í denn.
Þegar allt var komið inn var mannskapurinn svangur og var því arkað að Lotte's Sandwichbar þar sem allir fundu eitthvað við hæfi. Kjömsuðum svo á þessu í Kongens Have.
1 ummæli:
Þetta hefur gengið vel í sólinni sé ég!
Skrifa ummæli