fimmtudagur, 31. ágúst 2006

Mínar fyrstu

Sú fyrri af þeim fyrstu lág í beðinu og bar svip sakleysis fyrst hún sá ekki ástæðu til að fela sig. Sprauta með nál. Ég er hissa á að hafa ekki fundið eina slíka fyrr í stórborginni. Af nákvæmni vísindamanns tók ég fram tóma plastflöku og skrúfaði lokið af, lagði flöskuna á jörðina, tók því næst upp hapsann (handtínu) og náði taki á sprautunni.

Þá tók við miðið: að hitta beint ofan í flöskuna og það sem hraðast, ekki vill maður vera veifandi þessum ósóma. Anda svo léttar þegar möguleikinn á að stinga sig á nál og smitast af Guð veit hverju er lokaður inn í flösku. Henda flösku í svartan poka og binda fyrir. Fitja aðeins upp á nefið og dæsa. Hringja síðan í varnarmálaráðuneytið og spyrja hvort sprengja ætti pokann upp í loft. Eða þannig.

Sú seinni af þeim fyrstu spígsporaði um Halmtorvet í skóm sem smellur í. Sérhannaðir fyrir mellur? Hún sveiflaði slegnu hárinu og horfði með ákveðnu augnaráði inn í hvern bíl sem keyrði framhjá. Stoppaði við ljósastaur og hélt áfam að spígspora. Tók síðan viðbragð þegar einn ökumaður veifaði í hana og stökk upp í bílinn hjá honum. Kynnti sig fyrir ökumanni, kannski ræddu þau aðeins um verð og þjónustu og svo var brunað af stað. Ég fitjaði ekki upp á nefið en ég dæsti.

Engin ummæli: