miðvikudagur, 1. nóvember 2006

Framsagan, safnið og kvöldið

Það gekk líka svona glimrandi vel að halda kynningu á MA ritgerðinni í dag. Auk forvitinna nemenda voru þarna gömlu kennararnir úr mannfræðinni en einnig ættingjar og gamlir fjölskylduvinir. Baldur og PG mættu á svæðið en einnig Atli frændi og Gígja og Ómar og Sólveig, og þótti mér mjög vænt um það.

Að pólskufyrirlestri loknum snaraði ég mér yfir í eitthvað rammíslenskt, nefnilega Þjóðminjasafnið. Það hefur lengi staðið til hjá okkur skötuhjúum að kíkja á safnið eftir opnun og breytingar og loksins vorum við á réttum stað á réttum tíma (það er sko frítt inn á miðvikudögum). Ég varð mjög hrifin af framsetningu safnsins og hafði gaman af að skoða eldgömul eldhúsáhöld og þukla á þungum hringabrynjum.

Í kvöld er svo stefnt á kærustuparastund. Sætasti strákurinn í Kópavogi (og þó víðar væri leitað) ætlar að bjóða mér upp á Devitos pizzu og svo í bíó. Það sem aðeins ein áhugaverð mynd er í kvikmyndahúsum borgarinnar um þessar mundir þarf ég varla að segja ykkur hvað við ætlum að sjá. Mikið hlakka ég til að sjá Mýrina.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er önnur mynd í bíó á Íslandi sem er býsna áhugaverð. Sú heitir Börn og er sýnd í Háskólabíó. Þið ættuð endilega að sjá hana.

ásdís maría sagði...

Já, ég hef séð í blöðunum að hún fær góða dóma og jákvæða umfjöllun. Svo sáum við nú trailer að enn einni íslenskri mynd, Köld slóð, virkaði þrusu spennandi.