mánudagur, 26. febrúar 2007

Heim frá Hampi

Á föstudagsmorgun komum við til Hampi eftir þægilega nótt í 2 tyre AC næturlest, loftkældur vagn með tveggja hæða kojum.

Hampi er lítill bær NV af Bangalore, um miðja vegu til Goa, og er talinn helgur meðal Hindúa. Áður var þarna mikið Hindúaveldi, Viaynagara (Sigurborg), byggt upp af tveimur bræðrum. Eitthvað móðguðu þeir víst múslíma og var veldið brytjað niður í löngu umsátri. Wikipedia hefur smáatriðin.

Fyrsta verkefni okkar var að finna gististað sem uppfyllti kröfur okkar um verð og gæði. Eftir smá hótelarölt fengum við snyrtilegt herbergi með baði, fjallasýn og riverview af þakinu. Okkur féll staðurinn allur vel, andrúmsloftið afslappað og laust við tryllta umferðarmenningu Bangalore. Landslagið á þessum slóðum er líka svo skemmtilega samsett: Rauðleitt risagrjót sem minnir á góða kábojmynd, iðagrænar bananaplantekrum, hrísgrjóna- og sykurreirsakrar.

Dæs, er þetta ekki einum of rólegt? Ekkert hasaratriði í kábojmyndinni? Jú við tókum litla ferju (bát með utanborðsmótor) yfir á sem skiptir bænum í tvennt, gengum upp á hól og horfðum á sólina leggjast til viðar. Enn of rólegt? Bíðið bara, næst fórum við á huggulegan veitingastað og fengum að vita að ferjan hættir að ganga eftir sólsetur svo við vorum föst þarna megin árinnar!

Þar sem niðdimm nótt var hvort eð skollin á sögðum við hvort við annað, eins og Íslendingum einum er lagið: þetta reeeeeddast. Við borðuðum því góðan mat í rólegheitum og horfðum á American Beauty, lókalbíókvöld. Desertinn var nokkuð sem kallast Hello to the Queen og samanstóð af ís, crunchy kexi fljótandi í miklu magni af heitri súkkulaðisósu.

Eftir matinn skaffaði þjónninn okkur svo tveimur fylgdarpiltum sem leiddu okkur niður að vaði í ánni. Þegar þangað kom rifu drengirnir af sér buxurnar og gerði ég það sama en bauð Ásdísi á bak. Svo var lagt í göngu á aurugum árbotni í mittisdjúpu vatni. Allt gekk upp eins og í Indiana Jones handriti nema okkur vantaði kindla, svipu og hatt (muna það næst).

Piltana kvöddum við með peningaverðlaunum og eins og eins og oft vill verða vilja allir nærstaddir líka. Þarna var maður sem sagðist vera laganna vörður og í ljósi aðstæðna ætti ég að gefa honum 10 rúpíur fyrir kaffi (mútur). Ásdís tók vel í hugmyndina og sagði honum að hún skyldi tilkynna þessa spillingu og hann gæti drukkið eins mikið kaffi og hann vildi í fangelsinu. Löggimann áttaði sig fljótlega á því að hann hefði hitt ofjarl sinn og gengum við okkar leið.

Ævintýrum okkar var nú ekki alveg lokið því daginn eftir leigðum við reiðhjól og hjóluðum um rústirnar. Hnakkurinn á hjóli Ásdísar var eitthvað misheppnaður og pompaði í sífellu og eftir árangurslausar tilraunir með aðstoð sveitafólks hjóluðum við til baka og létum laga hjólið.

Eftir viðgerð hjóluðum við útum hvippinn og hvappinn. Heimsóttum steina sem kyssast (annar eins og skjaldbaka, hinn eins og belja), minjasafn staðarins, sundlaug drottningarinnar og neðanjarðarhof. Sundlaugin var því miður tóm en neðanjarðarhofið var hins vegar fyllt með rúmlega ökkladjúpu vatni.

Sunnudagsmorgninum vörðum við á Mango Tree, huggulegum stað sem stendur í brekku og er raðað í stöllum niður brekkuna. Þarna sátum við nokkra klukkutíma, drukkum te, kaffi, nýpressaða safa og nutum þess að horfa yfir ánna og dalinn.

Mango Tree er ekki bara spennandi út af þessu, hann skilur sig frá bænum með hjálp bananaplantekru sem maður labbar yfir á leiðinni. Eitt kvöldið stoppuðum við einmitt á þessari plantekru til að skoða stjörnurnar, engin ljósmengun í sveitinni. Bættist í hópinn skemmtilegur heimamaður sem sagði okkur í óspurðum að fyrir svefninn teldi hann gjarnan stjörnurnar og hefði mest komist upp í sex þúsund!

Að morgunchilli loknu gengum við niður að ánni því sunnudagar í Hampi eru bókstaflega laugardagar. Áin var full af baðgestum og minnti helst á Laugardalinn á fallegum degi heima ef frá eru taldir vatnabufflarnir sem tóku fullan þátt í fjörinu. Ekki fórum við í baðið en klifum í staðinn hæð sem veitir útsýni yfir allt svæðið, einn af hápunktum ferðarinnar og auðvitað er hof ofan á hæðinni, nema hvað.

Úr svona ferð er margs að minnast og fljóta nokkrir molar með hér að neðan:
Á minjasafninu þreif skólastúlka í hönd Ásdísar og kyssti hana.

Eitt sinn vatt sér að okkur lymskulegur gaur og bauð marijúana í hálfum hljóðum. Ásdís tæklaði það hátt og snjallt svo allir heyrðu: Marijuana NO! Tóku þau að kallast á eftir það, nærstöddum til skemmtunar. Díler: Marijuana? Ásdís: No!

Fílinn Laksmi, sem býr í þorpshofinu, fóðruðum við með 10 banönum, keypta á 10 rúpíur. Sambýlingar hennar, aparnir, eru hins vegar orðnir matvandir af öllu dekrinu.

Í þorpshofinu varpast skuggi varðturns á vegg, nema skugginn er á hvolfi.

Allir vilja láta taka mynd af sér og fá aur að launum. Grófust var kerling ein sem ekki kunni ensku fyrir myndatöku en eftir myndatöku kunni hún að segja: Fifty rupees. Þá sló ég persónulegt prúttmet og fékk henni eina rúpíu.

Myndir!

Engin ummæli: