miðvikudagur, 31. október 2007

Angkor í öllu sínu veldi

Angkor, rústir horfins Khmerastórveldis, voru upphafleg ástæða endurkomu okkar til Siem Reap. Angkor er khmer, tungumál heimamanna, og þýðir einfaldlega borg og lýsir það orð rústunum vel, borg með mörgum hofum. Byggingarnar eru flestar frá 9.-15. öld og bera þess ákaflega skýr merki að vera reistar af hindúum, allt flúrað í styttum af dönsurum og guðum sem koma Indlandsförum kunnuglega fyrir sjónir. Rústirnar eru á heimsminjalista UNESCO og ef fólk hefur engan áhuga á hofum þá er þetta ekki rétti staðurinn, þau eru fleiri en þúsund í Angkor.

Í fyrradag keyptum við okkur þriggja daga passa, tveir dagar reyndust okkur þó alveg nóg, inn á svæðið og fórum strax upp á eitt hofið, ásamt trilljón túristum, til að fylgjast með sólinni setjast. Þetta var smápríl en vel þess virði, sólin var á sínum stað og umhverfið hið fegursta.

Af öllum þessum trilljón túristum vorum við þó eingöngu samferða tveimur, hollensku pari sem við hittum í flugvélinni og ákváðu að fljóta með okkur á gistiheimilið, og ákváðum við að deila með þeim fararskjóta. Nú þegar við vorum búin að sjá sólina hátta í Angkor þótti öllum nauðsynlegt að sjá þessa rosastjörnu fara framúr en til þess þarf að vakna snemma.

Planið stóðst og næsta morgun vorum við öll komin um borð í léttivagninn um fjögurleytið og að aðalhofi rústanna, Angkor Wat (Borgarhofi), vel fyrir sólarupprás. Þar fengum við öll að leika okkur með vasaljósin okkar í smá Tomb Raider fílingi. Mitt í allri dulúðinni og myrkrinu birtist vægast sagt spélegur spói klæddur rauðum kufli, tilheyrði greinilega allt annari mynd, og spurði okkur í hvaða átt orgían væri, við lugum að hún væri löngu búin.

Auðvitað var hún ekkert búin, en hvað um það. Sólarupprásin var mál málanna og öðru sinni stóðum við í þvögu trilljón túrista og fylgdumst með undrinu vakna. Eftir því sem ljósmagnið jókst komumst við að því að bestu sætin voru frátekin því nokkrir pattaralegir skýhnoðrar höfðu troðið sér í fremstu röð svo stórstjörnuna sáum við ekki fyrr en löngu eftir dögun. Það verður þó að segjast að Angkor Wat er gullfallegt við hvaða birtuskilyrði sem er og breytti nærvera skýjanna engu þar um.

Angkor Wat var stórkostlegt á að líta og hefði ég gaman af því að ferðast aftur í tíma og sjá það í fullri dýrð, umkringt miklu síki og fullt af fallegum smáatriðum. Við gáfum okkur drjúga stund í að ráfa um og þegar við höfðum fengið nægju okkar leituðum við uppi bílstjórann okkar og báðum um næsta dagskrárlið. Að mínu mati var Angkor Wat hápunktur þessa dags.

Eftir þetta hófum við það sem kallað er litli hringurinn. Nafnið er tilkomið af því að eknir kílómetrar eru mun færri en í stóra hringnum en fyrir okkur ferðamennina er þetta akkúrat öfugt því á litla hringnum er miklu meira að skoða og mun meiri ganga um rangala rústanna. Meðal sýningaratriða voru Fílastallurinn (Terrace of Elephants) og Stallur holdsveika konungsins (Terrace of the Leper King). Orðin stallur og terrace eru samt frekar villandi þar sem Fílastallurinn er t.d. 300 metra langur, kannski meira eins og risavaxið svið.

Ekki skoðar maður neitt í Angkor án þess að eiga samskipti við hina bráðfyndnu heimamenn, þeir spretta upp út um allar rústir eins og gorkúlur sem selja bækur, föt og skartgripi ýmsa. Ekki keyptum við neitt af þeim en fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á t.d. sögu Angkor er hægt, með svolitlu prútti, að gera reifarakaup á svæðinu.

Litríkustu sölumennirnir eru yfirleitt á aldrinum 6-12 ára og eru jafnframt þeir harðsvírustu, alls ekki á neikvæðan hátt þó. Þau hafa til sölu mikið af einföldu dóti og er verðið oftast einn bandaríkjadalur. Þegar útlendingaradarinn þeirra nemur nærveru okkar koma þau þjótandi með orðunum one dollah, borið fram með hágæða suðurríkjahreim. Virki það ekki byrja þau að telja upp að tíu á hinum ýmsu tungumálum, t.d. ensku, frönsku, þýsku og dönsku.

Þessi fyrsti heili skoðunardagur var langur en skemmtilegur, endaði um hálftvöleytið og þótti okkur þá nóg komið af rústum í bili. Seinni dagurinn var mun léttari, færri staðir og meiri akstur. Það hentaði okkur vel því þá gat maður stoppað lengur á hverjum stað fyrir sig og einfaldlega notið þess að vera í Angkor án þess að skoða allt í krók og kima, enda skoðunarþörfinni svalað rækilega daginn áður.

Ég er sérlega feginn að við gerðum okkur aukaferð til Kambódíu til að sjá þessar sögufrægu rústir, algerlega þess virði. Ég mæli með þriggja daga passanum við þá sem ætla sér á svæðið því hann kostar jafnmikið og tveir stakir dagar, sem í okkar tilfelli var alveg mátulegt, en býður upp á möguleika á frekari rannsóknarferðum ef sá gállinn er á manni.

Engin ummæli: