fimmtudagur, 18. október 2007

Villta austrið

Þessi ágæti dagur leið hjá í ótalmörgum beygjum, hlykkjum, hæðum og öllu því sem einkennir kræklótta vegi um fallegt landslag. Við vorum á leið frá Luang Prabang til Phonsavan, ferðin gekk vel en var ævintýraleg engu að síður.

Rútur af þessu tagi stoppa út um hvippinn og hvappinn til að bæta fleiri farþegum í hópinn. Yfirleitt er um að ræða landsbyggðafólk á leið milli bæja, stundum með varning til sölu eða skipta.

Í einu stoppinu sté maður um borð og get ég svo svarið að spagettívestrastefið úr The Good, the Bad and the Ugly var spilað undir. Hann hafði enga fjöruna sopið (Laos liggur ekki að sjó) en í beltinu hékk hulstur og í því skammbyssa og byssukúlur voru nógar. Við gláptum sennilega smá en svo vandist þetta nú allt saman og tónlistin varð minna áberandi.

Ekki var ég fyrr orðinn sáttur við tilhugsunina um vopnaðan mann í næsta sæti en ung hjón með lítið barn vippuðu sér í sætið á ská fyrir aftan okkur. Allt gott um það að segja nema hvað haldiði? Maðurinn var EKKI með skammbyssu heldur með stóreflis riffil, ég legg nú ekki meira á þig lagsmaður. Þarna sátu þau bara voðasæt með barnið og riffilinn á milli sín og auðvitað þótti þeim ekkert eðlilegra.

Ég tók ekki alveg eftir hvaða spagettívestratónlist kom hjá unga parinu en kannski var það eitthvað í takt við A Fistful of Dollars. Allir hegðuðu sér þó prúðmannlega og voru hlykkirnir flestum til meiri trafala en byssurnar, t.d. ældi enginn af þeirra völdum.

Við komumst því heilu og höldnu alla leið inn á hótel í Phonsavan en þegar ég opnaði gluggann á herberginu okkar blasti heldur betur hressilegur kokteill við: Hríðskotabyssa, sprengjuvarpa, hermannahjálmur og flugvélasprengjur. Hljómar eins og rútan hafi verið fyrir smápatta en þetta hafi verið harkan sex. Í ofanálag er bærinn allur eins og klipptur útúr Lukku-Lákabók, breiðar götur, fáir á ferli og einhvern veginn sandblásið pláss. Lofar góðu og gengur hér eftir undir nafninu Villta Austrið :)

Engin ummæli: