mánudagur, 12. nóvember 2007

Pattaya á vespu

Við heimsóttum Pétur og Valeriyu í gær. Þar fengum við kynningartúr um sætu íbúðina þeirra og nutum mikillar gestrisni sem náði hámarki með frábæru flatbökunni sem Pétur eldaði með nokkrum einföldum handtökum í símanum sínum.

Þegar blaðrið í sumum var komið upp fyrir almennt þol vitiborinna manneskja bauð Valeriya mér á rúntinn. Við kvöddum strákana með loforði um að finna fyrir þá kraftajötnatímarit og skelltum svo hurðinni á eftir okkur. Skelltum því næst á okkur hjálmum og þeystumst af stað á rauðri vespu.

Við kíktum á helgarmarkað í suður Pattaya þar sem við fundum kraftakarlablöð fyrir karlana okkar og skáldsögur fyrir okkur skvísurnar: 6. áratugs New York skáldsögu annars vegar og rússneskan reifara í kýrillísku letri hins vegar, þið megið tengja bók við skvísu ef þið getið.

Þegar við yfirgáfum helgarmarkaðinn tók Valeriya mig í allsherjarskoðunarferð um Pattaya. Við keyrðum framhjá flottum byggingum og sáum ófáar verslunarmiðstöðvarnar, við þræddum þröngar götur á rauðu vespunni og tróðum okkur gegnum mannþröngina, okkur var boðið inn á bari af stúlkum sem héldu á áletruðum skiltum um ódýra bjórdrykkju, sáum súludans á opnum börum og heilan hóp af trönsum á leiðinni út á lífið. Allsstaðar var umferð fólks, bíla og skellinaðra og í hverju húsasundi voru hundruðir ljósaskilta. Pattayabúar elska nefnilega ljósaskiltin sín, marglit og stór. Best ef þau blikka í þokkabót.

Við enduðum rúntinn á því að keyra gegnum Arabahverfið og sáum þar ófáa veitingastaði með fallegt, arabískt letrið á rúðunum, einn danskan pulsuvagn (ég er jafn ráðvillt og þið) og fundum yndislegan ilminn af eplavatnspípu. Þegar við snérum heim drógumst við óhugnanlega fljótt inn í hinn almenna kjaftagang og það er með herkjum að ég rifja upp þessa frábæru ferð um Pattaya á vespu með fararstjóranum Valeriyu.

Engin ummæli: