fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Tiffany's

Í kvöld fórum við á flottustu kabarettsýningu Pattaya, TIFFANY'S SHOW! Það er víst óhætt að segja að þessur stelpustrákar (ladyboys) eru sannarlega engir venjulegir.

Sýningin hófst með lúðrablæstri sem dramatískustu höfðingjar fortíðarinnar hefður orðið stoltir af og þegar lúðrunum sleppti var lítið kynningaratriði. Eins og í öllum veluppbyggðum sýningum er fundin leið til að fá áhorfendur til að slappa aðeins af og eru fáar leiðir betri til þess en svolítið grín.

Tveir gaurar í litríkum kjólum með uppblásin brjóst voru fengnir til verksins með svolítilli hjálp frá mér. Þeir stukku nefnilega niður af sviðinu og áður en ég vissi af var sviðsljósinu beint á mig, gaurinn sem var kominn að mér lyfti upp pilsinu sínu svo nú var ég líka í því og hlammaði sér í kjöltuna á mér. Hvað á maður eiginlega að gera? Jú, það er nú einfalt. Auðvitað athugaði ég hvort ekki væri nóg loft í bobbingunum og uppskar eldheitan rembingskoss á ennið í kaupbæti sem skildi eftir sig hið fullkomna varafar. Ef þetta hefði gengið aðeins lengra héti færslan kannski Breakfast at Tiffany's...

Sýningin hélt svo áfram og hafði nú rækilega tekist að koma sýningargestum í gott skap. Atriðin voru hverju öðru fallegra og mörg ansi fyndin í þokkabót. Sviðsmyndir og búningar voru slík snilld að ég efast um að þau eigi sinn líka nokkurs staðar í heiminum.

Þegar dansatriðunum lauk hélt ég áfram að skemmta fólki því hið fullkomna varafar vakti mikla lukku þegar risastórir kínverskir eða tævanskir túristahópar gengu framhjá mér og bentu brosandi á ennið á mér, kannski þeirra leið til að þakka fyrir ómetanlegt framlag mitt.

Eftir að hafa fengið myndir af mér með hinum kossaglöðu varamönnum skutlaði bílstjórinn okkur í eina kringluna þar sem ég dreif mig inn á klósett til að þvo minjagripinn af andlitinu. Það var nú hægara sagt en gert því þetta var sko ekki bara vatnshelt, þetta var varalitur fyrir kafara og geimfara og samkvæmt gögnum frá geimferðastofnunum þarf leisermeðferð til að ná slíku af sér.

Ein manneskja hafði þó voðalega gaman af þessu, skúringakonan á klósettinu, og náði í vinkonu sína til að sýna henni þennan litríka falang. Einhvern veginn hafðist þetta nú allt saman með óhóflegri sápunotkun, miklu vatni og hágæða andlitsnuddi. Mér segir svo hugur um að þetta kvöld verði mér algerlega ógleymanlegt og mæli með Tiffany kabarettinum við alla sem eiga ferð í námunda við Pattaya.

Engin ummæli: