þriðjudagur, 5. maí 2009

Þroskamerki?

Þann 26. apríl síðastliðinn varð ég þrítugur og hélt af því tilefni lítið kaffiboð fyrir nánustu ættingja. Þarf vart að fjölyrða um það en hér var glatt á hjalla, nóg að spjalla um daginn eftir kosningar auk þess sem Ásdís hafði galdrað fram sautjánhundruð sortir af hnallþórum, rúllutertum og öðru góðgæti.

Síðan þá hef ég tekið út ansi öran þroska og var einna mest hressandi þegar ofninn í tölvuherberginu brast með og gerði úr því gufubað með sturtu. Ég fann samstundis að þroskinn hrannaðist upp meðan ég tókst á við ástandið með stakri lipurð.

Svo mjög á ég nú af þroska að mér var gjörsamlega ómögulegt að spássera í gegnum Kolaportið í gær án þess að grípa með mér vænan pela af Flóa-broddi. Drakk ég slatta af honum í kvöld með bestu lyst og skellti meira að segja í einn ábrysti með rjóma og kanilsykri. Er ég ekki frá því að hér sé kominn nýr uppáhaldseftirréttur.

Fyrir þau ykkar sem ekki hafa tekið út jafnöran þroska og undirritaður er bent á umfjöllun wikipediu um ábrysti. Fróður maður fræddi mig á því að fyrir vestan væri notuð aðalbláberjasaft eða -sulta í stað kanilsykurs og hygg ég á að reyna það fljótlega.

Engin ummæli: