miðvikudagur, 27. maí 2009

Yfir og til baka

Eins og einhverjum lesendum er kunnugt hef ég stundað sjósund síðan snemma í vor og þykir mér það mikil heilsulind. Sjóböðin og sundið eru eiginlega bara hápunktur hvers dags, eins og lífsorkan þjóti upp um nokkur stig. Þarna mætir iðulega hópur af góðu fólki og hleður battaeríin saman og gleðin er sannarlega við völd.

Fram til þessa hef ég látið mér duga að synda að bátum sem liggja við festar nálægt miðju Fossvogs og hef svo bætt við túrum meðfram ströndinni þar sem ég hef aukið vegalengdina jafnt og þétt. Í dag var þó brotið blað í persónulegri heimsmetasögu minni því þegar ég dembdi mér í sjóinn hafði ég sett mér markmið að synda yfir í annað bæjarfélag, Kópavog.

Sundið sóttist vel og eftir að hafa spókað mig ásamt Bigga tölvukarli á Gunnarshólma, landfyllingunni á Kársnesi, synti ég aftur í Nauthólsvíkina og endaði túrinn í upphituðu ylstrandarlóninu. Ég get svo svarið að það var eins og að koma í heitasta pottinn í Laugardal, hitinn háfstakk mann. Við hitabreytinguna byrjar líkaminn að bregðast við með skondnum hætti eins og að stífna í kjálkunum og er ákaflega fyndin áskorun að reyna vitsmunaleg samtöl með andlitið strekkt eins og trumbuhúðir.

Svo lá maður náttúrulega bara í pottinum og slakaði sér niður fyrir hjólatúrinn heim. Það er eiginlega einskis virði að verja fleiri orðum í þetta því það veit enginn hvernig þetta er fyrr en reynt hefur á eigin skinni. Yndislegt.

2 ummæli:

HT sagði...

Þú ert nagli!
:-)

baldur sagði...

Þakka fögur orð í minn garð :)