mánudagur, 11. júní 2012

Allt að gerast





Þá er eins og sumarið sé loksins komið. Við vorum í morgun í sólbaði út á palli með kisunni Hvítloppu sem núna er búin að stunda það að sitja á pallinum og horfa inn til okkar í næstum fjórar vikur. Slíka hollustu verður að verðlauna með í það minnsta smá athygli og klappi.

Af okkur er helst að frétta að við erum loksins búin að taka ákvörðun varðandi framhaldið og það er Ísland 12 stig! Já, hugmyndin er að snúa aftur heim og segja það gott af útlöndum  í bili . Maður getur bara verið svo og svo lengi frá sundlaugum og góðu drykkjarvatni.

Við sögðum upp vinnunni í síðustu viku og því eru núna aðeins sjö vinnuvikur eftir. Við erum farin að huga að búrskápnum og það lítur út fyrir að það verði hýðisgrjón í matinn næstu sjö vikurnar. Til marks um það var Baldur rétt í þessu að sjóða eitt kíló af grjónum. Þetta er æsispennandi keppni, náum við að klára birgðirnar, eða ná þær að komast undan?

Mig langaði að fá smá liti á síðuna og deili því með ykkur myndum sem ég tók í byrjun mánaðarins. Ég held uppteknum hætti og fer út að ganga nánast daglega og stundum tek ég myndavélina með. En ég tek alltaf mp3 spilarann með og er alveg yfir mig hrifin af þessu nýja tveir-fyrir-einn fyrirkomulagi : Ganga og góð saga. Var að klára Frankenstein og er núna byrjuð á Les  Misérables. Sú saga á eftir að endast mér næstu sjö vikur og gott betur.

Og ég held ég sé búin að ákveða hvernig lopapeysu ég ætla að prjóna á mig í ágúst. Allt að gerast, ég er að segja ykkur það!

3 ummæli:

Augabragð sagði...

Snilld! Ísland mun taka vel á móti ykkur :) Hér í 12 stiga hitanum er bara alveg ágætt. Maður getur alltaf hlýjað sér með góðu tei og góðum félagsskap. Og svo er líka bara ágætt að slökkva stundum á fréttunum og horfa á blómin og fuglana í staðinn ;)

Nafnlaus sagði...

Já, Ísland trekkir. Spurning hvort og hvenær það verður. Það hefði nú verið gaman að kíkja á ykkur í Lovlund, en ég verð bara að skoða norður-Noreg síðar.

Góða ferð heim.

kv. Fjóla

p.s. þið eruð velkomin að millilenda hjá mér :)

ásdís maría sagði...

Takk Fjóla, alltaf gott að vita af vinum í Danmörkunni góðu. Það verður gaman að fylgjast með því hve lengi þið endist :) Mig langar alltaf aftur til Köben, svona er þetta bara.

Já Saló, te og góður félagsskapur er ekkert síðra eða jafnvel betra en heitt veður. Allavega á mjög heitt veður ekki vel við mína skapgerð, Indland getur alveg vottað fyrir það!