laugardagur, 4. ágúst 2012

Garðverkin og dúllerí

Skrúbba

Smúla

Garðverkin

Untitled

Untitled

Í gær var fyrsti skýjaði dagurinn frá því við lentum á landinu. Við erum búin að vera á fullu að nýta okkur góða veðrið og spæna á hjólunum út um allar grundir, upp hæðir og ofan í laugar, gera og græja. Það var nánast léttir að fá einn skýjaðan dag, þó maður viðurkenni það nú ekki fyrir sjálfum sér, hvað þá öðrum.

Við áttum letilegan dag framan af, eða svo ég tali bara fyrir mig þá átti ég letilegan dag. Baldur á aldrei letilega daga og kann ekki listina að gera ekki neitt. Hann er hamingjusamastur þegar hann er að gera eitthvað gagnlegt. Hann tók sig því til og dró fram hjólin og tók að skúra þau og skrúbba enda ekki vanþörf á. Ég fékk að koma að þessum þvætti með þeim hætti að ég myndaði gjörninginn og smúlaði hjólið mitt.

Þar sem hann var kominn með garðslönguna í hendur tók hann að vökva beðin sem næst honum stóðu, og þá tók hann eftir því hve grasið hafði sprottið svo hann náði í slátturvélina og sló og rakaði. Setti svo punktinn yfir i-ið með því að ná í úðarann og varði hluta úr degi í að huga að staðsetningu úðarans, hvort hann ynni gott starf og almennt sýndi úðaranum mikinn áhuga.

Þegar við vorum komin með gott af inniveru brunuðum við niður í Markið og keyptum körfu á hjólið mitt. Nú get ég borið mitt eigið dót í minni eigin körfu, knúið áfram af eigin vöðvaafli og dugnaði. Á bakaleiðinni komum við við í Kosti, eða Litlu Ameríku, og skoðuðum vöruúrvalið. Það kom mér á óvart hvað þeir bjóða upp á gott úrval af salati og gat ég þarna tínt ofan í poka grænkál og keypt fyrir nánast ekki neitt. Þvílíkur lúxus!

Ég keypti líka ógesslega sæt möffinsform og nú þarf ég bara smá átyllu til að baka einhverjar djúsí múffur. Kíki kannski á síðuna hennar Evu Laufeyjar til að fá hugmyndir en allar tillögur eru vel þegnar.

Mér finnst hálfskrýtið að segja frá því svona á miðju sumri að maður hafi farið heim að horfa á sjónvarpið um kvöldið, en þegar það eru Ólympíuleikar þá bara verður maður að gera smá undantekningu, er það ekki? Við horfðum á Phelps synda flug og fá gull fyrir og síðan kom á óvart hvað það var skemmtilegt að horfa á 10 km hlaup kvenna. Sérstaklega með keppendur eins og Dibaba sem bara gefa í og setja í 5. gír undir lokin og spæna framúr hinum. Hún fór á Kostum, eigum við ekki að segja það?

2 ummæli:

Augabragð sagði...

Ég þarf endilega að fara að drífa mig í þennan Kost. Hef aldrei komið þangað. Svo skilst mér að matvöruverslunin Víðir bjóði eitt það albesta grænmetis- og ávaxtaborð sem fyrirfinnst á landinu. Sel það ekki dýrara en ég keypti það því ég hef heldur aldrei komið þangað!

ásdís maría sagði...

Já, það er ferlega gaman að skoða vöruúrvalið en líka pínu sjokkerandi. Gríðarstórar pakkningar en alveg hægt að gera góð kaup. Svo er Víðir einmitt á gátlistanum okkar, við erum að treina okkur heimsókn þangað :)