Síðustu dagar hafa einkennst af einstökum rólegheitum. Sem hefur í sjálfu sér verið vel þegið enda búið að vera sæmilegt span á okkur síðan við komum á klakann.
Að þessu sögðu þá er samt eitt eða tvennt sem er frásagnarvert, allavega í mínum huga. Í fyrradag, eftir heilan dag inni að velta fyrir okkur ferðum um landið, fórum við í Útilíf í Smáralind og ég keypti mér nýjan sundbol. Fékk mér svartan Sculpture bol frá Speedo. Ég hafði séð akkúrat svona bol til sölu í sundlauginni í Breiðholti vikuna áður og alveg fallið fyrir sniðunu á honum. Einsetti mér því að fá mér nýjan bol og vígja hann með því að synda 1000 m. Úr Smáralindinni fórum við því sem leið lá inn í Árbæ og í laugina þar, því þar er svo gott að synda. Endaði svo á að fara 2200 m í nýja bolnum, svo rennilegur er hann. Því fór svo að ég tvívígði bolinn eins og pabbi orðaði það.
Eftir sund og pott fengum við okkur rosalega gott að borða á Austurlandahraðlestinni niðri á Hverfisgötu og tókum svo góða meltingargöngu um miðbæinn með öllum erlendum ferðamönnunum.
Í gær eldaði Hulda rosalegar flatbökur handa okkur þar sem grilluð lárpera, sólþurrkaðir tómatar og bananar komu meðal annars við sögu. Fengum okkur síðan jógúrtís frá Jóger í eftirrétt og kíktum í Egilshöll á seinni sýningu á The Black Knight Returns. Ég hafði lesið í blöðunum að frammistaða Önnu Hathaway væri lofsverð og ég hafði fyrir vikið gaman af að fylgjast með tilþrifum hennar.
Í dag hjóluðum við síðan í nágrannaverslunina IKEA og keyptum afmælisgjöf handa mömmu sem einmitt á afmæli í dag. *Afmælisknús* Splæstum á okkur hádegismat í þaulsetinni kantínunni áður en við hjóluðum aftur til baka með körfur fullar af nýju og spennandi dóti. Útsölur eru svo skemmtilegar og það er alltaf pláss fyrir fleiri kerti, er þaggi?
Á morgun verður svo lagt upp í ferð norður í land. Ætlum að byrja á Dalvík og sjáum svo hvað setur, hvort við förum austur eða vestur eða upp eða niður. Fáum lánaðan bíl og útilegudót en þurfum sjálf að skaffa góða skapið. Það verður lítið mál og auðsótt.
2 ummæli:
Snilld! Ég keypti mér einmitt líka sundbol um daginn - en á reyndar ennþá eftir að vígja hann. Ég hlýt að drattast í sund bráðum!
Ég sé þig nú ekki fyrir mér "drattast" eitt né neitt, þú gerir allt með svo mikilli reisn :)
Skrifa ummæli