Um daginn greip ég myndavélina með til að fanga haustið í garðinum. Það tísti allt af fuglalífi og skrjáfi þar sem þeir rótuðu um í laufinu og þess á milli þaut í vængjum er þeir svifu á milli greina. Þeir voru svo háværir að ég tók að efast um eigin þekkingu á tilhugalífi þeirra og hefði getað svarið að það væri sá tími ársins. En það var eitthvað annað og örugglega jafnskemmtilegt: uppskeruhátíð spörfuglanna.
Ég fann af algjörri tilviljun leiði ömmu og afa. Auðvitað veit ég hvar leiði þeirra er en þegar ég hef komið að vitja þeirra hef ég iðullega gengið inn austanmegin og þvælst langa leið inn eftir öllu til að finna leiðið, stundum með lélegum árangri. Að þessu sinni kom ég vestan megin að og þá blasir allt umhverfið öðruvísi við manni. Að vanda var ég að skima í kringum mig og skoða nöfn (Leopoldína!)og rak svo allt í einu augun í nöfnin Rut og Óli. Amma og afi, nei hæ! Það er gott að vita af þeim á einum fallegasta stað borgarinnar.
Ég tók líka nokkur vidjó og ætla að sjá til hvað ég geri með þau. Ef mér hugnast svo gæti allt eins farið að ég klippti í eitt haustvidjó.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli