sunnudagur, 7. október 2012

Langur laugadagur

Við höfðum ákveðið að þessa helgina skyldi efnt til miðbæjarrúnts þar sem við erum einu sinni flutt í miðbæinn. Svo heppilega vildi til að við hittum á langan laugardag á Laugaveginum, sem þýddi að við vorum ekki eina fólkið í bænum, og það er alltaf skemmtilegra að hafa líf í kringum sig.

Við tókum reyndar forskot á sæluna á föstudagskvöldið og röltum niður Laugaveginn og önduðum að okkur komandi helgi. Það var skemmtilegt að verða vitni að helginni í fæðingu og hvernig veitingastaðir smám saman fylltust af prúðbúnu fólki sem ýmist steig út úr leigubílum eða kom arkandi niður strætin eins og við.

Við vorum að okkur fannst minnihlutahópur á svæðinu verandi Íslendinga því það úði allt af ferðamönnum og þá sérstaklega Hollendingum sem kannski voru Belgar. Við flúðum inn á tælenskan stað í Tryggvagötunni og borðuðum í friði fyrir Hollendingum, en sátum hins vegar uppi með spænska fjölskyldu og börnin tvö sem stóðu við mikið og mikilfenglegt tælenskt málverk. Bentu og sögðu til skiptis: Malo, bueno, malo, malo, bueno. Fígúrur málarans voru semsé misvelinnrættar að þeirra mati.

Á laugardaginn sjálfan gerðum við síðan margt skemmtilegt og upplyftandi. Byrjuðum á því að fara með hjólið hans Baldurs í viðgerð og röltum svo í fornbókabúðina á Hverfisgötu. Grömsuðum þar í stöflum og urðum að passa okkur á að velta engum bókastaflanum um koll, þeir voru þarna um öll gólf.

Úr fornbókaversluninni var eðlilegasta framhaldið Hókus Pókus búðin á Laugaveginum (!) Þar fékk Baldur sér úlf í eyrað, tönnel lúkk-a-læk. Ógesslegur töffari! Og í gula leðurjakkanum í ofanálag!

Við höfum svo gaman af því að skoða í fínum búðum svo við komum við í Kúnígúnd og létum afgreiðslumanninn sýna okkur alls konar fínerí sem við höfðum ekki hugsað okkur að kaupa. Kíktum líka í Suomi Prikl!, finnska verslun með æðislegum vörum. Mig langaði í allt.

Enduðum aftur inn á tælenska staðnum okkar á Tryggvagötunni, okkur vantaði tilfinnanlega pad thai í magann. Í eftirrétt var það Kolaportið þar sem við keyptum harðfisk og broddmjólk, en það var reyndar ekki notað í eftirrétt - finnst réttast að undirstrika það.

Þetta var svo skemmtilegt að við ætlum að gera þetta aftur næsta langa laugardag. Eina reglan er að það verður að vera nýr staður í hádeginu í hvert sinn, og ég held að mig langi svolítið að prófa þennan hér næst: Icelandic Fish & Chips, organic bistro.

Sveppur!
 
Ísland!
 
Við!
 
Múmínsnáðar!
 
Brunch!

1 ummæli:

ásdís maría sagði...

You are welcome, and welcome to my site :)