föstudagur, 5. október 2012

Kókoskúlur

Kókoskúlur Kókoskúlur Kókoskúlur í öskju Mig langaði svo í eitthvað sætt um daginn, en þó eitthvað sem væri næringarríkt og hollt. Langaði helst að baka eitthvað en þar sem ég er en ce moment utan bakaraofns þá varð ég að leggja höfuðið í bleyti. Fann þessa uppskrift sem ég hafði verið búin að vista og flokka, og ákvað að skella í nokkrar kókoskúlur.
Ég man ekki alveg hvar ég fann þessa uppskrift en ég mér dettur í hug að Solla Eiríks eða Café Sigrún eigi heiðurinn að henni.

Þetta er eins einföld uppskrift og þær gerast, og holl eftir því. Sjáið bara hvað fer mikið flotterí í kúlurnar:

Innihald:
2 troðfullir dl af döðlum
1 dl kókosolía
½ bolli kakó
2,5 dl kókosmjöl
2 msk agave sýróp

Hvernig:
Leggum döðlurnar í bleyti í 10-20 mín og setjum kókosolíuna í heitt vatnsbað  til að fá á fljótandi form. Maukum döðlurnar mjög vel í blandara eða með töfrasprota. Því næst er döðlumaukið sett í skál og við það hrærum við saman avagesýrópi, kakói og kókosolíu. Að síðustu er kókosmjölinu bætt út í og hrært vel.

Síðasta skrefið er að móta litlar kúlur úr deiginu (gott að nota teskeið) og rúlla þeim upp úr kókosmjöli. Setja í fallegt og skrautlegt box og inn í frysti þar sem þær geymast vel en þó aldrei lengi því þær eru svo ljúffengar.

Ef þetta er ekki sælgæti þá veit ég ekki hvað!

Engin ummæli: