mánudagur, 10. júní 2013

Ísbúðin Laugalæk

Fórum í smá ísrúnt fyrr í kvöld. Vildum prófa nýja ísbúð og sammæltumst um að kíkja á ísbúðina í Laugalæk. Það kom í ljós að Ísbúðin í Laugalæk selur ekki bara ís heldur líka Tröllapylsur, eins konar bratwurst pylsur sem fást í Þýskalandi. Girnilegt. Hvar er sauerkrautið?

En það kemur svo sem málinu ekkert við nema bara fyrir það eitt að mér þótti óhemjufyndið að ganga inn í búð sem sérhæfir sig í að selja ís og geta líka keypt delicatessen bratwurst pylsur. Kannski að pylsurnar séu góðar með ísnum? Eða ísinn með sauerkrautinu?

Mér dettur þetta í hug í samhengi við jóladagatölin með súkkulaði sem sum hver eru seld með lítilli tannkremstúpu. Ég hélt nefnilega lengi vel að maður ætti að setja tannkremið á súkkulaðið og fannst það bæði sniðugt og skemmtilega öðruvísi. Reyndi þetta þó aldrei því tannkremstúpa fylgdi aldrei með mínu dagatali. Ó, hin saklausu æskuár.

Í Ísbúðinni Laugalæk stóðum við heillengi fyrir fram afgreiðsluborðið og virtum fyrir okkur úrvalið. Við vorum svo ráðþrota frammi fyrir herlegheitunum og við vorum svo lengi ráðþrota að strákurinn hinu megin borðsins tók á það ráð að gefa okkur smakk af því sem okkur langaði í.

Féllum síðan að lokum flest fyrir 50/50 ís: súkkulaði og jarðarber. Góður og kaldur, alveg eins og ís á að vera.

P.s. Nú er ég búin að tala vel um Hamborgarabúlluna og Ísbúðina Laugalæk. Hvar er eiginlega kommissjónin mín?


Untitled
 
Jarðarberjasúkkulaðiís
 
Ísbúðin Laugalæk
 
Ísstrákur

Engin ummæli: