mánudagur, 22. júlí 2013

Helgarpistillinn

Helgarcollage

Þá er enn ein helgin að baki þetta sumarið. Ég hef tekið eftir því að ég tel helgarnar á sumrin, tikk-takk, ólíkt því sem ég geri á veturna, og ég sé á eftir hverri og einni...

Þessari helgi var varið úti í yndislegu sumrinu við að borða sumarsalat, baða okkur í tjörninni, flatmaga með kindle-inn úti á teppi, leyfa grasinu að kitla tærnar, borða ís...

Við erum farin að venja komur okkar til Åletjern nánast upp á hvern einasta dag, og nú er svo komið að okkur finnst við ekki almennilega hrein og böðuð nema við höfum stungið okkur útí með hinum öndunum. Alla síðustu viku beið ég spennt eftir því að Baldur kæmi heim úr vinnunni svo við gætum smellt okkur í baðfötin, tekið fram hjólin og hjólað í sumarylnum út að tjörn. Og við erum svo sannarlega ekki eina fólkið sem er að baða sig þar fram eftir kvöldi. Mig er aðeins farið að langa í nightswimming, ætti maður að hætta sér?

Ég útbjó þriggja bauna salat handa okkur um helgina, sem ég sneiddi rauða tómata út á. Pipraði vel. Lá síðan alla helgina og las. Fyrst las ég bókina Life After Life sem kom út fyrr á árinu og er eftir breska rithöfundinn Kate Atkinson. Æði. Síðan byrjaði ég á bókinni The Light Between Oceans eftir M.L. Stedman. Vá. Rosaleg. Þvílíkt vald á viðfangsefninu.

Ísbíllinn kom á sunnudaginn! Röbbuðum við bílstjórann/sölumanninn sem fræddi okkur á því að það er Íslendingur í Drammen sem gerir út þennan og að ég held fleiri ísbíla sem síðan rúnta um bæi eins og Skien. Ísbíllinn rúllar eftir götunum og spilar lagstúf sem einna helst minnir á lagstúfinn úr Klaufabárðunum (kannski að einhver þekki þá sem Vitlausu karlana). Við keyptum okkur mangó-rjómaís og hann var kærkomin viðbót í sumarið.

En, stóra spurningin er: þessa vikuna, blir det nightswimming?

Engin ummæli: