miðvikudagur, 24. júlí 2013

Lemon bars

Lemon Bars
 
Hér kemur önnur uppskrift frá Mountain Mama Cooks. Lemon bars, eða sítrónubitar. Ég hafði aldrei smakkað álíka sætindi og þar sem ég var í stuði fyrir sítrónusætindi fannst mér upplagt að prófa þessa uppskrift. Ég get ekki beðið, ég verð að segja frá því strax: Þessir sítrónubitar eru himneskir.
 
Þeir komu hins vegar aðeins dekkri úr ofninum en ég hafði gert ráð fyrir. Kannski hefði verið ráð að setja álpappír yfir formið til að koma í veg fyrir það. En það virðist ekki hafa komið niður á bragðinu því, eins og ég var að enda við að segja: ólögleg sætindi.
 
Það eru til þúsundir af lemon bars uppskriftum á netinu og þessi er aðeins óvenjuleg fyrir þær sakir að Kelley hefur bætt kókos út í uppskriftina. Næst ætla ég að prófa hefðbundnari uppskrift að lemon bars, þ.e. sans noix de coco. Þá gæti líka svo farið að ég fengi heiðgula sítrónubita út úr ofninu, og þá yrði þessi bakari/ljósmyndari afar ánægður.
 
Látum nú hendur standa fram úr ermum!
 
HVAÐ
Í botninn fer:
2 bollar hveiti
0,5 bolli sykur
0,5 tsk salt
1 bolli ristaður kókos
250 g kælt smjör, skorið í teninga
 
Í fyllinguna fer:
1,5 bolli sykur
4 egg
3 msk sítrónubörkur
0,5 bolli sítrónusafi, rifinn fínt
2 tsk hveiti (já, 2 teskeiðar)
1 tsk lyftiduft
1/8 tsk salt
 
HVERNIG
Til að útbúa botninn:
1. Hitið ofninn upp í 175°C.
2. Ristið kókosinn, ýmist í ofni eða á pönnu (mér finnst pannan betri upp á að hafa betur auga með ristuninni). Leyfið að kólna aðeins.
3. Rífið sítrónubörkinn.*
4. Smyrjið 23x23 sm form.
5. Setjið hveiti, sykur, salt og kókos í matvinnsluvél** og pölsið (pulse-takkinn). Bætið við smjöri og pölsið þangað til deigið byrjar að klumpast saman.
6. Þjappið deiginu ofan í form og bakið fyrir miðjum ofni í 25 mín.
 
Til að útbúa fyllinguna:
1. Sykur, egg, sítrónubörkur, sítrónusafi, hveiti, lyftiduft og salt saman í matvinnsluvél**.
2. Blandið saman á hægum snúningi.
3. Hellið fyllingunni yfir botninn og bakið áfram í 25-30 mín.
 
Kælið og skreytið með flórsykri. Skerið niður í ferninga, leggið einn bita á fallegan disk, setjist pent til borðs, leyfið augunum að taka inn fegurðina (bíðið!) og svo... njótið afraksturs erfiðisins.
 
* Best fer á að nota mjög fínlegt rifjárn þegar rífa á sítrónubörk. Ennfremur er mikilvægt að rispa aðeins ysta lagið af sítrónuberkinu, þ.e. gulasta lagið, og láta það hvíta undir alveg eiga sig. Þannig nær maður fram mestu sítrónubragði og sleppur við beiska bragðið sem kemur af pektíninu.
 
** Ef engin er matvinnsluvélin á heimilinu má hæglega notast við hendurnar og kremja smjörið milli lófanna þangað til það hefur gengið vel saman við sykurinn og hveitið. Fyrir fyllinguna má að sjálfsögðu notast við hrærivél í stað matvinnsluvélar.
 
Lemon bars
 
Lemon bars
 
Sítrónubarrar

Engin ummæli: