föstudagur, 29. nóvember 2013

Súkkulaðibitakökur með hvítu & dökku súkkulaði

Súkkulaðibitakökur

Ég var í stuði fyrir smákökur um daginn og fór á stúfana. Fann þessa uppskrift hjá henni Ree sem heldur úti hinni geysivinsælu síðu The Pioneer Woman. Svo ég skellti að sjálfsögðu í þær, sérstaklega þegar ég sá að það var hvítt súkkulaði í 'ðeim. Ég veit ekki hvað það er með mig og hvítt súkkulaði, en við erum BFF.

Eitt samt: Þær eru svolítið linar þessar smákökur. Jafnvel eftir að þær hafa kólnað. Svo það gæti verið ráði að auka aðeins við hveitimagnið eða minnka smjörmagnið. Eða hafa þær aðeins lengur inní ofninum. Reyndar held ég að það væri ráð að skella deiginu inn í ísskáp í svona 2 tíma og síðan móta úr því kúlur. Geri það næst!

Svo áferðin er ekki fullkomin en bragðgóðar eru þær.

Ég gerði hálfa uppskrift en hér er heil uppskrift eins og hún kemur af beljunni.

HVAÐ
300 g smjör, við stofuhita
2 bollar sykur (eða: 1 bolli sykur og 1 bolli púddari)
2 egg
3 tsk vanilludropar
2 bollar hveiti
3/4 bolli kakó
1,5 tsk matarsódi
1 tsk salt
1,5 bolli dökkir súkkulaðidropar
2 bollar hvítir súkkulaðidropar

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Skafið neðan úr hliðunum.
3. Bætið við eggjunum einu í einu, hrærið, bætið svo vanillunni útí.
4. Sigtið út í hveitið og kakóið og bætið salti og matarsóda út í. Hrærið varlega þar til allt hefur blandast saman (ekki hræra of mikið).
5. Bætið súkkulaðidropunum út í og hrærið þeim varlega saman við deigið.
6. Inní ísskáp með deigið í 2 tíma.
7. Mótið kúlur úr deiginu með ísskeið og leggið á bökunarpappír. Skreytið með hvítum súkkulaðidropum.
8. Bakið í 9-11 mín og kælið á grind.

Ísköld mjólk og málið er leyst!

Súkkulaðibitakökur

Engin ummæli: