Við erum búin að vera duglega að nýta okkur safnkost Borgarbókasafnanna að undanförnu. Við fórum t.a.m. upp í Gerðuberg fimmtudaginn seinasta og fundum þar rekka með helling af skemmtilegu fræðsluefni. Rúsínan í pylsuendanum er að fræðsluspólur eru fríar og því gátum við tekið eins og okkur lysti. Reyndar er hámarkið fimm spólur í senn og urðum við að sætta okkur við það með semingi.
Af þessum fimm erum við búin að horfa á tvær. Önnur var úr þáttaröðinni Lonely Planet og fjallaði um Eyjaálfu, nánar tiltekið eyjarnar Fiji, Vanuatu og Solomon eyjar. Þar var ég vel með á nótunum enda búin með námskeiðið Etnógrafía Eyjaálfu.
Sú síðari, Micro Cosmos, var alveg frábær og skemmtum við okkur konunglega yfir henni. Hún fjallaði nefnilega um skordýr og undraveröld þeirra sem við mannskepnurnar verðum ekki mikið varar við. Við komumst t.d. að því að könglulær eru eldsnöggar að bregðast við þegar vitlaus engispretta stekkur ítrekað í vefinn hennar þangað til að lokum hún festist. Það var eins og hún væri að plasta bretti, svo snögg og afkastamikil var þessi könguló. Eftir þessa meðferð var engisprettan eins og múmía, nema hvað hún var uppdópuð af köngulóareitri.
Núna erum við mætt aftur á bókasafnið en með annað markmið í huga. Við erum að leita að hljóðbókum til að hlusta á í labbitúrum. Úr nógu er að velja og áttum við Baldur erfitt með að ákveða hverja væri best að taka til að byrja með. Ég ákvað að gerast þjóðleg og tók því Dalalíf I: Æskuleikir og ástir á meðan Baldur valdi söguna Hið undarlega mál Jekylls og Hydes. Þar fyrir utan tókum við sitthvora slökunarspóluna.