Við kíktum í heimsókn til Einars og Sólveigar í gær og fengum þá að sjá litla gimsteininn þeirra, hana Sædísi Ósk. Fyrst þegar okkur bar að garði var hún nýsofnuð og því urðum við að tippla inn á tánum til að fá á hana litið.
Þegar við vorum hins vegar hálfnuð með vöfflustaflann heyrðist hljóð úr horni, búhú, fæ ég engar vöfflur? Akkuru er ég skilin eftir útundan? Þá var náð í prinsessuna og við Baldur féllum alveg kylliflöt fyrir henni. Hún er gullfalleg og svo skýr.
Það var eins og hún væri mikið að pæla í hlutunum og þegar Einar fór að gretta sig til að fá hana til að brosa horfði hún á hann í forundran. Það var eins og hún væri að hugsa: Hvað er eiginlega að honum pabba? Síðan kom svipur sem virtist segja: Ég þekki þennan náunga ekki!
Hún varð mjög hrifin af Baldri og þegar hún brosti bráðnaði maður eins og smjör. Baldur er nefnilega svo klár, hann kann fótanudd og við Sædís virðumst eiga það sameiginlegt að finnast fótanudd alveg óskaplega gott.