Ég tók mér frí frá bókum og Baldri í gær og kíkti til Maríu vinkonu. Ég var nefnilega ekki búin að sjá nýju íbúðina hennar í Mosó. Áður en ég lagði af stað stúderaði ég vel kortið í Gulu bókinni, fann götuheitið og dró stóran, bleikan hring á kortið þar sem götuna var að finna. Síðan lagið ég af stað og leið nokkurn veginn eins og ég væri að fara í ferðalag, með kort og myndavél í framsætinu og Baldur í dyragættinni að óska mér góðrar ferðar.
Ferðin sóttist vel. Eina truflandi var sólin í augun en það flokkast ekki sem vandamál því ekki má hallmæla sólinni eins og við öll vitum. Það var sem sagt dýrindis veður, orðum það frekar þannig, og allt ljómaði af fallegu hausti. Mosfellsbær er óskaplega fallegur svona í haustbirtunni.
Þegar ég var komin ískyggilega nálægt Esjunni og Akranesi og farin að efast um að vera á réttri braut kom loksins að beygjunni sem ég hafði beðið eftir sem leiddi mig síðan að húsinu hennar Maríu. Þegar ég drap á dyr og þeim var upp lokið kom blaðskellandi sá allra krullaðasti hundur sem ég hef séð, sá er við Bangsa er kenndur. Ég var svo upptekin að reyna að fæla hann frá mér að ég hafði varla tíma til að heilsa upp á Maríu, Kára og Gabríel. Hundurinn fékk þó að lokum leið á mér og þá gat ég klipið í kinnarnar á Gabríel sem brást óhress við og kúrði sig enn frekar hjá mömmu sinni. Hann er nefnilega orðinn það stór að vera orðinn feiminn og við mig var hann sannarlega feiminn.
Ég fékk auðvitað sight-seeing tour um húsið og var mest allan tímann gapandi af undrun því þau skötuhjú standa í stórframkvæmdum. Ég fékk m.a. að vita að núverandi baðherbergi þeirra var áður fyrr eldhús, bílskúrinn er verið að gera upp og breyta í eldhús, núverandi eldhús verður að herbergi Gabríels og síðan ætla þau að rífa burt stigann sem tengir hæðirnar saman og útbúa þar aðstöðu fyrir tölvuna. Talandi um framkvæmdagleði.
Við fórum í smá göngutúr öll fjögur þ.e. ég, María, Gabríel og Bangsi og ekki höfðum við gengið langt þegar við komum að slegnum túnum með kindum og hestum á beit. Við heilsuðum upp á hestana og gáfum þeim brauð. Ég var reyndar óttarlega skræfa og ætlaði aldrei að manna mig upp í að rétta brauðsneiðina að hestunum, þeir eru með svo stórar tennur! Á leiðinni heim benti María mér á bóndabæinn sem er steinsnar frá hennar eigin heimili og þar voru m.a. tvær kanínur í mestu makindum í garðinum. Yfir öllu lúrði þessi rómaða sveitaró og friður og auðvitað ferskt loft og sól í heiði.