föstudagur, 18. október 2002

Hnattvæðing

Ég var að koma af setningu alþjóðaráðstefnu um hnattvæðingu sem Háskólinn stendur fyrir. Ég mætti reyndar 40 mínútum of seint því ég þurfti að klára skýrslu fyrir Gallup en í bjartsýni minni hélt ég að það kæmi ekki að sök, það kæmu hvort eð er ekki svo margir á þessa ráðstefnu.

Þegar ég gekk hins vegar inn í Hátíðarsal Háskólans blasti við mér mannhaf mikið, hvergi var laust sæti að sjá og upp við veggina hafði fólk búið sér tímabundið bæli. Ég fór því að ráði þeirra og hallaðir mér upp að næsta lausa veggplássi. Það var hvorki meira né minna en Zygmunt Bauman sem stóð í pontu og flutti ræðu sína af miklum krafti. Hann er háaldraður en í feiknagóðu formi, með þennan líka fína hvíta hárkraga. Ég náði því miður litlu af því sem hann sagði því varla var ég komin inn fyrir þegar hann sagði máli sínu lokið og settist í sætið sitt. Það sama gerði ég, þ.e.a.s. ég settist í næsta sæti því eftir að ræðu hans lauk fóru margir af fundinum og við veggjalúsirnar gripum þau glóðvolg, í bókstaflegri merkingu.

Eftir setninguna var boðið upp á kleinur og kaffi og þáði ég það fyrrnefnda. Mér til mikillar furðu var þarna ólíklegasta fólk samankomið, fræðimenn, forseti og stúdentar. Á morgun er síðan seinni dagur þessarar ráðstefnu og ætlað ég að nýta tækifærið, hamstra nesti og overdósa af fræðilegum fyrirlestrum.