fimmtudagur, 10. október 2002

Immaqa

Þessa dagana hrjáir okkur einhvers konar skrifteppa og við höfum engan veginn staðið okkur vel í blogg-skrifum. Núna hef ég þó riðið á vaðið og rofið þessa tæplega tveggja vikna þögn á síðunni okkar. Ég sá í Kastljósi í gær viðtal við tvo bloggara, kannski það hafi verið spark í rassinn?

Af skiljanlegum ástæðum skrifaði ég ekkert á tímabilinu 26. september til 3. október því þá dvaldist ég meðal Inúíta í smáþorpinu Kulusuk á austurströnd Grænlands. Þar eru engin vatnsklósett né rennandi vatn í hús þannig að ég lét mig ekki dreyma um að þefa uppi nettengingu. Hvað um það, ferðin var frábær í alla staði og sérstaklega skemmtilegt að kynnast svona ólíkum lifnaðarháttum. Af því sem á daga mína dreif var m.a. grænlenskur trommudans, grænlenskt dansi-mik, grænlensk messa (smjög spes), ísjakar og aftur ísjakar, fárviðri, blíðviðri, hvalaskoðun og hvalveiðar (næstum), ganga á Grænlandsjökul, selverkun, hike um grýtta náttúru Kulusuk, spilamennska, hundar og aftur hundar og látinn hvolpur undir húsinu okkar. Ég hef engan tíma til að skýra þetta betur en það er aldrei að vita nema ég komi með ferðasöguna, svo framarlega sem ég man hvað gerðist.

Svo ég útskýri nafnbót þessarar færslu þá er immaqa orð í grænlenskri tungu sem innfæddir nota mikið í daglegu tali. Það þýðir kannski/ef til vill og á að vera vísun í það að Inúítar eru nær algjörlega háðir náttúrunni, þ.e. verðri og vindáttum og því oft erfitt að plana viðburði sökum þessa. Ég vildi að ég hefði vitað af þessu áður en ferðin hófst því þá hefði ég lagt eyrun við og reynt að höggva eftir þessu orði. Það er þó spurning hvort það hefði eitthvað hjálpað því í raun fannst mér tungumál þeirra það óskiljanlegt að ég greindi ekki hvenært eitt orð endaði og það næsta byrjaði, þetta var svona ein heild í mínum eyrum.