föstudagur, 29. nóvember 2002

Glæsileg Veislan

Eins og ég greindi frá í gær fórum við skötuhjúin að sjá sýninguna Veisluna sem nú er á fjölunum í Þjóðleikhúsinu. Í stuttu mál sagt þá er sýningin alveg glæsileg, fyrirtaksleiksýning sem kom mér svo sannarlega á óvart. Ég hafði í þokkabót ekki séð kvikmyndina og vissi því ekkert við hverju var að búast.

Þar sem sýningin er sýnd á Smíðaverkstæðinu var návígið við leikarana mikið og í raun upplifði maður sig sem hluta af gestunum í veislunni. Það gerði það að verkum að maður lifði sig frekar inn í þessa átakanlegu sögu og á köflum var erfitt að kyngja kökknum í hálsinum. Á öðrum köflum átti maður erfitt um andadrátt þegar mestu hláturrokurnar stóðu yfir.

En mikið svakalega eigum við Íslendingar góða leikara! Ég hvet alla eindregið að drífa sig að sjá þessa sýningu, þetta er alveg einstök upplifun og sérstakasta leiksýning sem ég hef nokkurn tímann farið að sjá.

fimmtudagur, 28. nóvember 2002

Seinna en vænna

Seinustu jól fengum við tvo miða í Þjóðleikshúsið að gjöf frá Pétri afa og Stellu ömmu. Síðan þá höfum við sífellt verið með hugann við hvað okkur langar að sjá en enn ekki gefið okkur tíma til að fara.

Um daginn vorum við enn sem áður að skoða leikskránna og kíktum á miðana okkar góðu. Þá sáum við okkur til hrellingar að þeir voru komnir hættulega nálægt því að renna út. Þetta var okkur nægilegt spart í rassinn því við hringdum strax og pöntuðum tvo miða á Veisluna.

Í kvöld förum við síðan á sýninguna og ég er farin að hlakka til. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem maður fer í leikhús.

mánudagur, 25. nóvember 2002

Í dag er góður dagur. Ekki bara af því að mér finnst gaman í skólanum eða af því að það er hlýtt úti. Neeeiiij..... Í dag er hvorki meira né minna eeeen..... ...........AFMÆLISDAGUR BESTA PABBA Í HEIMI! Til hamingju með afmælið pabbi og hafðu það gott.
Ég veit ekki hvað ég ætla að bralla í dag en það verður ábyggilega eitthvað sniðugt. :)

fimmtudagur, 14. nóvember 2002

B(l)ögger

Ég tek í sama streng og Baldur hvað varðar leti við að blogga. Það er þó ekki alveg bara við leti að sakast heldur er þannig mál með vexti að bloggerinn hefur verið alveg hundleiðinlegur upp á síðkastið, neitar að birta færslur. Það hefur því alveg verið óviðunandi ástand í bloggermálum og manni hafa einfaldlega fallist hendur. Þetta virðist þó vera komið í lag núna og þá er aldrei að vita nema maður fari að reifa sínar skoðanir hér á síðunni.

miðvikudagur, 13. nóvember 2002

Loksins, loksins...

Hér er ég, júhú. Ég hef nú verið frekar latur við bloggið eins og lesendur hafa vafalítið orðið varir við. Síðast þegar ég skrifaði var ég eitthvað að gaspra um próf í stærðfræðigreiningu. Skömmu eftir gasprið varð ég veikur og gat því ekki mætt í prófið.

Næsta mál á dagskrá eftir prófið var tónleikamessa í Hjallakirkju sem ég ætlaði að auglýsa hér, en ég komst ekkert upp í skóla sökum veikinda. En á sunnudagsmorgninum drattaðist ég í kirkjuna og misþyrmdi raddböndunum (var með hálsbólgu) með messu í C eftir Mozart. Það gekk nú furðuvel miðað við sjúkrasöguna hér að ofan.

Það er nú ekki hægt að segja annað en að Mozart hafi verið snillingur og finnst mér það vera vægt orð til að lýsa honum. Þvílíkur gaur! Reyndar skilst mér að hans rétta nafn sé Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart. Til fróðleiks bætti ég inn smá Mozart hlekk

Eftir að lífverðir mínir höfðu komið mér frá trylltum lýðnum í tónleikasalnum buðu Pétur afi og Stella amma mér og Ásdísi út að borða á hótel Sögu. Það var ferlega gaman og af því að ég var í svörtum jakkafötum þá hélt eitthvað fólk að ég væri þjónn og spurði mig hvernig súpa væri á boðstólnum. Ég svaraði eins og þjónn og sagði þeim að það væri humarsúpa. Þá vildu þau vita meira en þá vildi ég ekki vera þjónn lengur og sagði þeim að ég væri gestur og að þau yrðu að tala við þjónana. Af Sögu sneru svo allir saddir og sælir heim á leið í síestu.

Nú síðan þá hef ég verið að læra og svo hef ég reynt að læra smá. En á laugardagskvöldið síðasta lærði ég ekki. Ég glápti á dvd með Ásdísi og borðaði hollan mat. Myndin sem glápt var á heitir Rosemary´s baby og er eftir Polanski. Mæli með henni.

föstudagur, 8. nóvember 2002

Fynd

Ég var aðeins að vafra á netinu og rakst á ósköp skemmtilega orðabók. Hér koma nokkur dæmi.

Afdala s.
Sögnin að "afdala" er komin úr mállýskum heimsnúinna vesturfara. Merkir hún að taka alla dali af manni, þ.e. ræna hann fé sínu öllu.
Engilsaxar n. kk.
Skylt kjötsöxum. Sérhæft verkfæri (hnífur eða klippur) til vængafsneiðinga. [heimild: www.eitthvad.is]
Fantasía n. kk.
Dyravörður/útkastari á veitingahúsi, eða hver sá búnaður eða sérfræðingur sem er til þess hannaður að sía burt fanta og fúlmenni.
Höfuðkúba n. sérnafn
Höfuðborg litlu vindlaeynnar Kúbu. Gengur einnig undir nafninu Havana.
Kartafla n. kvk.
Kartafla og kartöfflur eru samsett orð "Car" og "töfflur" og eru cartöfflur sérstakir inniskór eða sandalar sem notaðir eru við akstur.
Legsteinn n. kk.
Læknisfræðilegur aðskotahlutur í ætt við nýrnasteina og gallsteina.
Limlestur n. kk.
Sérkennileg tegund forlagalesturs. Þekktur meðal spákerlinga á vestfjörðum. Ekki er lesið í bolla, lófa, eða annað algengt, heldur er notast við líkamshluta sem hefur fram að þessu lítið verið notaður við þessa iðn. [heimild: www.eitthvad.is]
Maður með mönnum orðasamb.
að vera -. Lauslátur samkynhneigður karlmaður.
Tíundaður a.
Að vera tíundaður. Að ganga í sértrúarfélag og vera krafinn þar um "félagsgjöld".
Vanviti n. kk.
Maður sem sérlega þekkingu hefur á sendi-, eða léttabifreiðum ýmiskonar.
vera Önnum kafinn orðasamb.
Orðasambandið að vera Önnum kafinn lýsir karlmanni sem hreinlega veður í kvenpeningi.
Öryrki n. kk.
Hagyrðingur eða maður sá er yrkir ljóð af miklum móð (hraða).

sunnudagur, 3. nóvember 2002

Erilsamur dagur

Í dag er allra heilagra messa þegar látinna er minnst og í tilefni þess var haldin tónleikamessa í Hjallakirkju þar sem sungin voru sérvalin stykki eftir Mozart. Eins og góðir menn muna er Baldur í kirkjukór Hjallakirkju og hefur í allt haust verið að æfa sig fyrir þessa tónleika.

Eins og ég hef áður sagt þá er ekkert vit í því að þurfa að kveljast heilu og hálfu dagana við drunur úr barka maka manns ef maður fer síðan ekki og hlustar á kórinn í heild sinni og því mætti ég til messu klukkan 11 í morgun. Pétur afi og Stella amma voru mætt til að dást að drengnum rétt eins og ég. Kórinn stóð sig alveg ljómandi vel og ég fékk meira að segja gæsahúð þegar þegar sungið var Kyrie eleison.

Að messu lokinni fórum við fjórmenningar niður í bæ í leit að opnum veitingarstað þar sem við gætum sest niður og snætt hádegisverð. Því miður var Á næstu grösum og Caruso lokað þannig að við drifum okkur í hlaðborð upp á Hótel Sögu. Það var svona ljómandi fínt og fékk ég mér meira að segja tvíréttaðan forrétt. Við vorum öll svo södd og sæl eftir veigarnar að við drifum okkur heim í síestu.

Þegar heim var komið sá ég þó að María vinkona hafði reynt að ná í mig og þegar ég náði tali af henni var hún að bjóða okkur í innflutningsveislu upp í Mosó. Ég fór að hugsa hvað það væri skrýtið að halda innflutningsveislu strax þegar allt væri enn í steypuryki því varla voru þau búin að gera upp bílskúrinn og þvottahúsið strax eða hvað?

Það sannaðist þó þegar við mættum á svæðið að ekki vantar kraftinn í þau því allt var komið á sinn stað. Eldhúsið er risa flæmi með þessari líka fínu eldhúsinnréttingu sem þau fengu á slikk. Á miðju gólfinu stóð síðan þetta líka stóra eldhúsborð og ég sá bara fyrir mér átt stykki litlar Maríur og Kára sitjandi þar!

Við Baldur áttum varla til orð yfir drifkraftinum í þeim og sérstaklega átti ég bágt með að trúa hve fljótt þetta hafði gengið fyrir sig. Eins og áður var Gabríel feiminn við mig en hann lék þó á alls oddi og heillaði okkur algjörlega. Sérstaklega sjarmerandi var það þegar hann brosi sínu blíðasta framan í frænda sinn og klikkti síðan út með því að blikka hann! Já, hann ætlar að verða svaka sjarmör hann Gabríel, á því leikur enginn vafi.