miðvikudagur, 11. desember 2002

Afslöppun

Við tókum því rólegar en við ætluðum í dag sem er kannski ekki það sniðugasta í prófvertíðinni. Það var samt ósköp ljúft að gera eitthvað annað en að rýna í fræðiskruddur, t.d. að rýna í Hringadróttinssögu. Ég er komin á annað bindi og er rúmlega hálfnuð með söguna. Svo er bara að klára áður en myndin kemur í bíó því ég er nokkuð viss um að Baldur ætli að draga mig með í þetta skiptið fyrst það tókst ekki í það fyrra.

Afslöppunin fóls þó ekki einungis í fagurbókalestri og táfettingum því Baldur kláraði að setja upp jólaseríuna sem ég vanrækti að gera í gær (þar slapp ég auðveldlega). Nú ljómar stofan af marglitri ljósaseríunni og íbúðin er hægt og bítandi að færast í jólabúning.

Á meðan hann dundaði sér við þetta saxaði ég niður smá grænmeti og útbjó mexíkanskan kvöldverð. Reyndar eldum við bara mexíkanskt á laugardögum en þar sem síðustu laugardagskvöldum hefur verið eytt upp í Odda eða VR II hefur ekkert orðið að neinni eldamennsku umfram það að ná í skyr eða jógúrt úr ísskápnum.