Helgin leið ansi hratt enda höfðum við margt fyrir stafni. Á laugardaginn fórum við að sjálfsögðu í Gay Pride skrúðgönguna sem var með litríkasta móti.
Þar sem það rigndi eins og hellt væri úr fötu áður en gangan hófst tókum við Baldur með okkur regnhlífar (eða parachute eins og Baldur kallaði það í London!). Til að vera í stíl við daginn voru regnhlífarnar okkar bleikar og bláar. Þar að auki lánaði Pétur afi Baldri regngallann sinn svo hann var varinn í hólf og gólf ef svo má að orði komast.
Þegar við komum að Laugaveginum var gangan hafin og eftir að hafa fylgst með vögnunum líða hjá gengum við til liðs við hana. Þrátt fyrir að varla væri þverfótandi fyrir barnavögnum og regnhlífum var þetta svaka gaman og mikil stemmning. Göngunni lauk síðan á Lækjagötu frammi fyrir sviði sem sett hafði verið upp beint fyrir neðan MR.
Margir söfnuðust í brekkuna við MR til að sjá betur á sviðið en við létum okkur nægja að dúsa á miðri umferðargötunni. Þarna var bæði fjölmennt og góðmennt (fer ekki alltaf saman) og ég verð svei mér þá að segja að ég vissi ekki að Íslendingar ættu allar þessar regnhlífar til. Skemmtiatriðin voru síðan alveg frábær og ögraði mannskapurinn rigningunni með því að taka lagið og syngja: Mér finnst rigningin góð, trallallallalla, oho!
Eftir Gay Pride kíktum við síðan til mömmu því hún átti 45 ára afmæli. Það var alveg æðislega gaman og sátum við og kjöftuðum langt fram á nótt og hræddum hvort annað með skuggalegum sögum. Til hamingju með daginn um daginn elsku mamma!
Gærdagurinn var síðan allur með rólegra sniði. Tókum því rólega fram eftir degi og fórum síðan Á næstu grös með afa, Degi og Stellu. Síðan fórum við unga fólkið í keilu sem ég hef ekki gert í mörg herrans ár. Mér gekk samt sæmilega, allavega vann ég hin þrjú!