þriðjudagur, 12. ágúst 2003

Óprúttnir náungar

Þegar við komum heim úr útlandaferðinni um daginn þurftum við að fara með bílinn okkar Nolla í viðgerð til að skipta um einhvern skynjara. Sú viðgerð tók lengri tíma en við var búist þar sem panta þurfti varahlut frá Bandaríkjunum og það tók sinn tíma.

Nú, nú hvað um það, við biðum sem sagt í þrjár vikur eftir bílnum okkar og á föstudaginn kom loksins þessi blessaði skynjari til landsins. Þeir í Ræsi hræddu okkur síðan með einhverju tali um að þeir kæmust ekki að til að setja skynjarann í fyrr en eftir helgi svo við urðum ósköp súr. Þeir hringdu hins vegar seinna um daginn með þær gleðifréttir að bílinn væri kominn í lag og biði nú eftir foreldrum sínum. Þannig að þegar við sóttum hann var það langþráð stund enda ekki sést í þrjár vikur.

Nolli var hins vegar ekki alveg eins og hann á að sér að vera, eitthvað vantaði... Ah, nýja, rauða skoðunarmiðann fyrir 2004, hann var horfinn! Einhverjir óprúttnir náungar höfðu séð sér leik á borði og ákveðið að skrapa af honum alla skoðunarmiða undanfarinna ára eða alveg niður í einn ljótan, grænan endurskoðunarmiða. Og við sem vissu ekki einu sinni að Nolli hefði einhvern tímann þurft að fara í endurskoðun fyrir okkar tíma.

Auðvitað var skoðunarstöðin svo lokuð þegar við komum þar askvaðandi á Nolla þennan föstudagseftirmiðdag svo alla helgina við urðum að keyra Nolla um allan bæ með þessu græna ferlíki, Nolla til háborinnar skammar og hneisu.

Í gær fórum við hins vegar og fengum eldrauðan og splunkunýjan 04 miða svo Nolli getur varpað öndinni léttar. Hjúkket!