sunnudagur, 24. ágúst 2003

Myndaalbúm

Laugardagurinn leið ljúflega við Enyusöng og afslöppun. Við fórum ekki einu sinni út úr húsi fyrri part dags, við vorum svo löt. Ég bakaði að vísu bananabrauð sem etið var með bestu lyst auk smjörs og osts.

Við vorum þó ekki með öllu aðgerðalaus; Baldur lærði heima fyrir þetta undirbúningsnámskeið í reikningshaldi og ég tók mig til og gróf upp gömul myndaalbúm. Ætlunarverk mitt var að finna pláss fyrir nýju myndirnar sem við vorum að fá úr framköllun.

Þetta voru þrjú albúm sem um var að ræða, eitt frá mér, eitt frá Baldri og eitt sem var alveg tómt. Þar sem ég er dottin úr þjálfun við að raða myndum í albúm tók það mig smá tíma að skipuleggja hvernig best væri að raða myndunum.

Ég komst loksins að eftirfarandi niðurstöðu: Myndirnar af jólunum 2000 fóru í mitt albúm og allar hinar myndirnar af okkur Baldri fóru í Baldurs albúm og svo auðvitað nýja albúmið. Þetta voru myndir af Fríðu Sól og Kisu, ferðinni okkar um Norðurland sumarið 2001 og svo myndir af 17. júní sama ár.

Það var afskaplega gaman að skoða þessar gömlu/nýju myndir og í leiðinni renndi ég yfir myndir sem þegar voru komnar í albúm, myndir af tilhugalífi okkar Baldurs og fyrstu sambúðarvikum.

Síðan þessar myndir hafa verið teknar höfum við ekki tekið fleiri myndir á filmu enda fengum við stafrænu vélina í júní 2001 og bara tekið á hana síðan. Það þarf þó ekki að þýða að við hættum að raða í myndaalbúm, mér finnst það nefnilega gaman og gott að geta gripið í þau þegar gesti ber að garði. Nú þarf bara að fara að velja myndir til útprentunar og bretta upp ermar, raða, líma, raða, líma.