mánudagur, 25. ágúst 2003

Örlaukur

Á laugardaginn bjó ég til lauksúpu. Ég tel mig nú ekki vera neinn brautryðjanda í súpugerð en ég gerði hana frá a til ö í örbylgjuofninum. Þetta tók mig svona korter og árangurinn var alveg hreint firnafínn. Prófið bara sjálf.

Innihald:
450g laukur
50g smjör
2 msk maísmjöl
1 hnífsoddur cayenne pipar
2 grænmetisteningar
0,85 l af vatni
salt og pipar eftir smekk
rifinn ostur eftir smekk (frekar meiri en minni þó)
steinselja

Setjið smjörið í stóra skál (sem kemst þó í örbann) og bræðið á fullum styrk í eina mínútu. Á meðan skerið þið laukinn í þunnar sneiðar og hrærið við smjörið í skálinni og eldið í 4 mínútur á fullum styrk. Að þessum fjórum mínútum liðnum hellið þið vatninu út í skálina ásamt kryddi og þurrefnum og hendið inn í ofninn og hafið í fimm mínútur við fullan styrk. Stráið svo ostinum yfir, látið hann bráðna og skreytið með smá steinselju.