Við Baldur höfum átta vanda til að fresta hlutunum fram í hið óendanlega. Var svo komið að okkur ofbauð framtaksleysi okkar og tókum við á það ráð að skipuleggja betur hvern dag. Á hverju kvöldi áður en gengið er til náða eyðum við því nokkrum mínútum í að gera lista yfir það sem við viljum koma í verk daginn eftir og númerum atriðin eftir mikilvægi, mikilvægasta er nr. 1 o.s.frv. Þetta er hinn svokallaði tékklisti.
Með þessari aðferð höfum við nú þegar komið ýmsu í verk sem hefur verið í biðstöðu ansi lengi. Um daginn fórum við t.d. með yfirdýnuna á rúminu okkar í hreinsun en sú dýna hefur mátt dúsa upp á skáp í rúmt ár núna eða frá því við fluttum í Hrauntunguna.
Við vorum til að byrja með svo bjartsýn að við töldum okkur trú um að hún kæmist í litlu smáþvottavélina okkar. Það var hins vegar borin von svo í staðinn reyndum við bara að gleyma henni upp á skáp. Yfirdýnan á því tékklistanum hreinsun að launa.
Með þessu skipulagi tókst mér líka að kaupa afmælisgjöf fyrir mömmu í tæka tíð en ég hef verið svolítið gjörn á að draga slíkt alveg fram á síðustu stundu og jafnvel gefa afmælisgjafirnar eftir afmælisdaginn sjálfan. En ekki lengur. Ég er meira að segja búin að kaupa afmælisgjöf fyrir brósa og hann á ekki afmæli fyrr en í lok september!
Dagurinn í dag er ekkert öðruvísi en undanfarnir dagar að því leyti að nóg er af atriðum á tékklistanum. Þessu ætlum við að koma í verk:
1. Fara í Bóksölu stúdenta og kaupa þar dagbók og pennaveski.
2. Fara með skólatöskuna mína (faktískt séð á Baldur hana) í viðgerð, láta laga rennilásinn.
3. Ná í yfirdýnu úr hreinsun.
4. Fara með þrjár filmur í framköllun sem beðið hafa þess síðan í maí 2001!
5. Senda myndir til Frónfjarlægra ættingja gegnum svokallaðan tölvupóst eða emil.
6. Kaupa straujárn á útsölu og straubretti.
Mikið verður gaman að koma öllu þessu í verk. Mest hlakka ég til að skoða straujárn (hef aldrei farið í svoleiðis leiðangur áður) og auðvitað að fá myndirnar úr framköllun. Af hverju vorum við eiginlega að taka myndir? Það kemur í ljós.