föstudagur, 30. apríl 2004

En nú ætlum við að skottast upp í Grísalind með kærkomnu stoppi á Grænum kosti. Ég plataði pater meus nefnilega til að skipta út flatbökunni fyrir marínerað tófu og graskers- og spínatkarrý. Gaman, gaman.

Hlýja sér hjá Funa

Nú er ég búin að hanga hér á Bókhlöðunni í níu tíma og er orðin ansi þreytt. Ætla samt að halda áfram í klukkutíma eða þangað til Balduro mio kemur úr sínu fimm tíma reikningshaldsprófi (úff). Til að mögulega getað haldið lestrinum áfram fór ég þó í smá göngutúr áðan og fyllti lungun af hreinu og mjög fersku (frekar köldu) lofti. Það rigndi nú fínum dropum á mig sem var afskaplega frískandi en líka kælandi svo þessi göngutúr teygðist ekki beint út í hið óendanlega.

Þegar ég var búin að ganga um svæðið kringum Bókhlöðuna, teyja mig og fetta, rölti ég til baka. Rakst ég þá á Funa og heilsaði upp á hann. Hann var greinilega líka nýkominn inn úr rigningunni því hann var allur blautur og kvartaði sáran við mig. Ég ákvað að reyna að hugga hann og strauk honum því um höfuðið, tosaði í eyrun og kjassaði hann smá.

Fyrir þá sem ekki vita er Funi rauðbröndótt fress sem gert hefur sig heimakomið í anddyri Bókhlöðunnar. Þar liggur hann ýmist á mottunum fyrir miðju anddyrsins eða liggur upp í tré eins og rauðbröndóttur pardus. Það þarf ekki að taka það fram að hann er yndislegur og uppáhaldsstarfsmaður safnsins hjá mér :) Sjáið bara hvað hann er sætur.

mánudagur, 26. apríl 2004

Amli

Jæja, búinn í prófi og get snúið mér að því sem skiptir máli: eiga afmæli.

Gaman

Þetta er síðasta bloggið sem ég sendi frá mér áður en 25. afmælisdagurinn rennur upp. Er lífið ekki frábært? Það er næstum því alltaf ofboðslega gaman að vera ég.

Þarna fengu lesendur smá brot af því hvernig tuttuguogfjögurra ára ungum og bjartsýnum manni líður. Ekki er víst að þetta gildi um alla unga menn. Hins vegar er algilt að þegar þeir verða tuttuguogfimm fara að vaxa sérdeilis löng nefhár, þeir byrja að reykja pípu og festast í ruggustól.

Ég ætla ekki að láta þetta henda mig. Á morgun verð ég alveg eins og í dag, allra manna föngulegastur og án ruggustóls og pípu en látum nefhárin liggja milli hluta (tíhí).

laugardagur, 24. apríl 2004

Gott mál

Bersýnilega hafa þónokkrir lesið moggann þann 19. apríl þokkalega, að minnsta kosti blaðsíðu 18. Þessa ályktun dreg ég af því að fólk hefur komið að máli við mig og lýst yfir ánægju sinni út af greininni.

Nú er ég hins vegar fjarri greinarskrifum. Ég sit og skrifa setningar á borð við: =sumproduct(c8:c16;vextir). Fyrir þá sem þekkja til þá er þetta excel sem ég er að grufla í. Maður er bara alltaf að læra eitthvað nýtt :)

fimmtudagur, 22. apríl 2004

Gleðilegt sumar!

Jahá, það er bara komið sumar. Það er gott, það er alltaf gaman á sumrin. Ég er nú samt að hugsa um að halda upp á sumardaginn fyrsta þann þriðja maí, því þá er ég búinn í prófum.

Jessjessjessjess... rólegur þau eru nú rétt að byrja.

þriðjudagur, 20. apríl 2004

Viltu fylgjast með?

Lestu þá Morgunblaðið í gær vel í gegn...

sunnudagur, 18. apríl 2004

Barbarar bíða

Ekki sáum við barbarana heldur nýsjálensku myndina Whale Rider. Myndin hefur hlotið fullt af verðlaunum og augljóslega ekki að ástæðulausu. Mér fannst hún frábær.

laugardagur, 17. apríl 2004

Gaman

Þá er reikningshaldsverkefni búið og við tekur prófatörn. Í vikunni kláraði Ásdís þrjár ritgerðir og í tilefni af því og reikningshaldinu skelltum við okkur í bíó. Við sáum myndina Something´s Gotta Give með Jack Nicholson og Diane Keaton. Það var gaman. Í kvöld stefnum við á enn frekari fögnuð og ætlum að sjá myndina Les Invasions Barbares, vonandi verður það líka gaman.

sunnudagur, 11. apríl 2004

Gleðilega páska!

Undanfarna daga hef ég setið sveittur yfir reikningshaldsverkefninu. Þetta er frekar skemmtilegt verkefni og ber þess greinileg merki að bókarar lifa viðburðaríku lífi, í heimi þar sem allt getur gerst.

Það lenti t.d. loftsteinn á fasteigninni okkar og skemmdi helminginn af henni og tryggingarnar sluppu allbillega frá dæminu. Úff, hvað ætli ég segi við hluthafana? Hvernig kemur ársreikningurinn til með að líta út? Svörin við þessu koma í næsta þætti af: Bókað með Baldri. Verður þátturinn spennandi? Það máttu bóka! Hahahahaha! ;-Þ

Súkkulaðipáskaeggið frá Bretagne er greinilega farið að segja til sín, ég er andsetinn af páskaeggi! Úúúúú...

þriðjudagur, 6. apríl 2004

Mikið gaman!

Á laugardaginn fórum við í brúðkaup til vina okkar Maríu og Kára. Þau giftu sig í Reykholtskirkju sem er mjög falleg, sérstaklega glugginn (sem er líka altaristafla) og ljósakrónurnar. Við lögðum reyndar svo seint af stað að ég þurfti að setja lóð á hægri fótinn svo við næðum í tæka tíð. Brúðkaupveislan var haldin á Bifröst en þar eru þau veitingamenn og hafa því aðgang að fínum sal. Þetta var mikið stuð og fullt af góðu fólki. Mér finnst gaman í brúðkaupum. Ætla ekki fleiri að fara að gifta sig?

Í gær fékk ég email frá einni af mínum aðalfyrirmyndum, Dave Draper. Vei! Þetta var mér hörkuhvatning í ferðalagi mínu að stærri vöðvum og ég tók eitt af hinum alræmdu prógrömmum frá meistaranum í kvöld. Brjálæðisleg átök!

Á heimleiðinni kom ég við hjá hinum frábæru froskum og tjattaði smá við þau. Þegar ég svo kom heim beið mín aldeilis óvænt sending. Nefnilega páskapakki frá Bretagne, jeijúhú! Eins gott að vera duglegur að æfa því í kassanum var fátt annað en hágæðasúkkulaði og mikið af því!

fimmtudagur, 1. apríl 2004

Gvendur

Já, grunaði ekki Gvend, ég var hrædd um að einhversstaðar lægi hundurinn grafinn.

Þá finnst mér aprílgabb Fréttablaðsins betra - allavega lét ég glepjast!

Hmm...

Ætli það sé 1. apríl í dag?