fimmtudagur, 18. ágúst 2005

Vestbad

Veðrið hefur leikið við borgarbúa þessa vikuna. Okkur fannst kjörið að nota alla þessa skínandi sól til að fá smá lit á föla kroppa. Þegar við dvöldum í Kaupmannahöfn árið 2001 fórum við nokkrum sinnum í sundlaugina Vestbad, sem var rétt hjá tjaldstæðinu, og vorum mjög hrifin. Við ákváðum að endurnýja kynni okkar við hana og eyða einum sólríkum degi þar. Við héldum snemma af stað á hjólfákum okkar og komum við í bakaríinu og Netto búðinni sem við versluðum svo oft við á sínum tíma.

Þegar í Vestbad var komið breiddum við úr strandmottunni okkar og tókum til við að flatmaga. Við vorum hvort um sig með sína dönsku bókina og reyndum að sannfæra okkur um að þetta væri ekki algjör letidagur þar sem við værum nú að lesa danskar bókmenntir og þar með á einhvers konar dönskunámskeiði, bara utandyra.

Við entumst þó ekki lengi við lesturinn enda er hægt að finna sér margt annað til dundurs í Vestbad. Í innilauginni er hægt að synda eða leika sér með sundleikföng. Í útisundlauginni er hægt að fara í rennibrautina og ofurhugar geta stokkið af háu bretti ofan í djúpa laugina. Þá er að sjálfsögðu hægt að fara í frisbí, eltingaleik og boltakast en skemmtilegast af öllu er þó að reyna fyrir sér á trampólínunum.

Síðla dags snérum við heim á leið, rjóð og sælleg - jafnvel pínu sólbrennd.

Engin ummæli: