föstudagur, 19. ágúst 2005

Rölt um Amager

Í skólanum hjá mér í dag var myndin Okay eftir Jesper W. Nielsen sýnd. Þar sem hún kvað vera gott sýnishorn af dönskum kaldhæðnishúmor fannst okkur Baldri tilvalið að kíkja á hana og sáum alls ekki eftir því enda eðalmynd á ferð.

Að myndinni lokinni röltum við frá KUA (Københavns Universitet Amager) og tókum smá hring um Amager. Við kíktum m.a. í Amager Centret og pikknikkuðum í Lergravsparken.

Þaðan héldum við síðan í átt til Amagerstrandar en hún hafði daginn áður verið vígð af Frederik krónprinsi og Mary. Margt var um manninn á ströndinni þótt liðið væri á daginn og greinilegt að margur heimamaðurinn var að taka út nýju ströndina. Einhverjir flatmöguðu í sandinum, nokkrir hugdjarfir syntu í sjónum en flestir röltu bara um í rólegheitunum og gæddu sér á einhverju góðgæti.

Við óðum í flæðamálinu og létum það duga enda ekki búin fyrir sjóbað. Við hjóluðum síðan heim úr strandparadísinni alveg í skýjunum yfir því að búa í borg sem býður upp á strönd í bakgarði manns.

Engin ummæli: