sunnudagur, 23. október 2005

Pompei

Í dag heimsóttum við hina fornu borg Pompei. Heimsókninni má best lýsa sem innliti á 2000 ára gamla þrívíddarljósmynd þar sem bærinn grófst undir gríðarlegt magn sjóðheitrar ösku úr Vesúvíusi á örskammri stundu. Með í för var stingandi sterk sólin og bókin Turen går til Italien og fórum við þá hringferð um rústirnar sem mælt var með þar.

Á árum áður var Pompei mikil verslunar- og hafnarborg og stunduðu héruð og bæir innar í landinu verslun sína þaðan. Sem ferðamanni í borginni finnst manni þetta skrítið þar sem sjórinn er frekar langt frá en það á sér sínar skýringar því eldgosið breytti ekki aðeins lífi borgarbúa heldur einni farvegi árinnar Sarnus sem varð til þess að áin og ströndin eru í dag þó nokkra vegalengd frá Pompei. Í borginni bjuggu í kringum 20.000 einstaklingar en flestir þeirra voru flúnir þegar Vesúvíus frussaði öskunni yfir bæinn.

Þess má til gamans geta að ítalska orðið vesúvíus er dregið af orðinu fesf (frá Oscunum sem stofnuðu borgina 600 f. Kr.) sem þýðir reykur. Það má því segja að við höfum skroppið til Reykjavíkur, eða þannig.

Á göngu okkar um Pompei náðum við að skoða hús af öllum stærðum og gerðum en ber þó helst að nefna Villa di Misteri sem er ótrúlega vel varðveitt ríkmannsvilla með hrikalega mörgum herbergjum og sérdeilis heillegum málverkum. Við skoðuðum líka hof, baðhús, þinghús, hóruhús, leikhús, hringleikahús og markaði, svo eitthvað sé nefnt. Svo virðist vera sem bæjarbúar hafi lifað ansi ljúfu lífi því t.d. gátu þeir valið á milli útimarkaða og yfirbyggðra verslunarmiðstöðva og í baðhúsunum var boðið upp á köld, volg og heit böð ókeypis og ég er viss um að þeir hafi líka haft gufuböð.

Eftir að hafa gengið brennheitan dag um rammgerðar götur Pompei ákváðum við að snúa lúin heim á leið en ákveðin í að skoða þetta allt betur síðar þar sem einn dagur dugar skammt á jafnmögnuðum stað og þessum.

Engin ummæli: