Í dag tók ég próf í tölfræði og eins og venjulega tók ég með mér skriffæri, strokleður, reiknivél og klukku til að hafa á borðinu. Áður en ég lagði af stað athugaði ég hvort ég hefði aukablý meðferðis og hvort klukkan góða væri rétt stillt. Allt reyndist í orden.
Ég mætti tímanlega á prófstað og kom mér vel fyrir við borð í fremstu röð. Prófið byrjaði svo á slaginu níu, það veit ég því ég leit á klukkuna um leið og ég fékk prófið í hendur. Það leið eins og önnur próf, hratt, og þegar 10 mínútur voru eftir fór ég í rólegheitum að skrifa inn á svarblaðið hvaða krossa ég hefði valið. Þetta gerði ég af vandvirkni og reyndi að nota spariskriftina mína.
Ég var einmitt nýbyrjaður á því þegar ein yfirsetukonan kemur og gerir sig líklega til að taka prófið af mér. Ég tók úr mér eyrnatappana, var svolítið undrandi, og þá sagði hún mér stórtíðindin: Prófið er búið. Sem betur fer leit hún á klukkuna mína og gat sagt mér að hún væri tíu mínútum á eftir áætlun. Fyrir vikið gaf hún mér séns á að klára að skrifa upp restina meðan hún sópaði að sér prófum kollega minna, sem betur fer. Spariskriftin bíður betri tíma.
2 ummæli:
Hjúkkett, mar.
Þokkalega hjúkkett!
Skrifa ummæli