þriðjudagur, 28. febrúar 2006

Febrúarannáll

Mér fannst svo ljómandi gaman að taka saman janúarannálinn að ég ákvað að gera það sama fyrir febrúarmánuð. Nú, nú þetta var mánuður í styttra lagi, varla hafinn en þó strax á enda kominn. Það útskýrir kannski dræma frammistöðu í bókalestri enda aðeins tvær bækur sem komast á lista fyrir þennan mánuðinn: Hroki og hleypidómar og The Good Earth.

Ég hef þeim mun fleiri bækur á takteinunum, einar sjö ef mér telst rétt til. Ég skilaði reyndar Atómsstöð Halldórs Laxness en ætla að halda áfram með Vefarann enda hálfnað verk þá hafði er. Ég hef líka verið að grípa í bók Evu Hoffman, Lost in Translation, sem fjallar um upplifun höfundar af því að flytjast í æsku búferlum frá Póllandi. Þá er barnabókin Emil og Skundi líka á náttborðinu og ætlunin er að endurnýja kynnin við þá sögu hvað úr hverju.

Að lokum er ég með bækur sem tengjast kúrsinum The Asian Mystique. Ég er eitthvað komin af stað með The Red Queen eftir Margaret Drabble og hef gaman af því að skyggnast inn í hirðlíf kóresku konungsfjölskyldunnar. Ég er líka aðeins farin að blaða í Vild Ingefær eftir Anchee Min en Madame Mao eftir sama höfund og I Am the Clay eftir Chaim Potok eru verk sem bíða frekari flettinga.

Þó ég hafi ekki sýnt af mér mikla takta í bókalestri hef ég verið þeim mun duglegri að glápa á kvikmyndir, margar hverjar sem hafa verið á leiðinni í tækið í langan tíma. Má þar helst nefna myndirnar In the bedroom og A beautiful mind, tvær myndir sem ég er afskaplega ánægð með að vera búin að sjá en kem ekki til með að kíkja á aftur í bráð. Af léttara efni sá ég m.a. Zoolander, Madagascar, Pride & Prejudice, Chinatown, Amadeus og Charlie's Angles 1 & 2.

Af annarri iðju mánaðarins má nefna að við urðum okkur úti um fjalla af góðri tónlist, gerðumst áskrifendur að Politiken og fyrir vikið viðræfuhæfari um landsins gagn og nauðsynjar, ég byrjaði að sækja tíma í The Asian Mystique þar sem ég fékk meðal annars að sjá verstu kvikmynd veraldar og við fengum froskafjölskylduna í heimsókn til að spila Settlers. Við skötuhjú héldum upp á fimm ára sambandsafmæli þann 14. febrúar með rómantískum hætti og ég lét loks gamlan draum rætast, vona bara að það endi ekki svona: one of these days these boots are gonna walk all over you.

Síðar í mánuðinum skruppum við í sveitarferð, ég fékk kennslu í hvernig skal afvopna þjóf með Netto poka, við ferðuðumst aftur til miðalda þegar smávaxnir sjóræningar, Ninja skjaldbökur og prinsessur ráfuðu um sveitir og ég tók mína fyrstu dýfu niður á við en tókst að koma mér upp aftur. Það var góður endir á góðum mánuði.

Hér koma síðan örfáar myndir frá annars vegar Settlersspiladegi og hins vegar Valentínusardegi.

Hver er sætust með apa í bananahýði á smekknum sínum?

Froskur úr bakaríinu - hann var Nammi

Veltir fyrir sér næsta leik onkel Baldurs

Með rósir og handunnið Valentínusarkort frá sætum gæja

Baldur með "Blue Steal" á hreinu

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Genial fill someone in on and this post helped me alot in my college assignement. Thank you as your information.